136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvað er hér á ferðinni? spyr hv. þm. Sturla Böðvarsson. Það er einfalt mál. Það er erfðagóss frá fyrri ríkisstjórn, það er arfleifð gamalla tíma. Það er skýringin á því að þetta er ekki mál þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr, það má öllum vera ljóst og það ætti að vera hv. þingmanni fullljóst. (Gripið fram í: … stjórnarfrumvarp?) Nei, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) þetta er stjórnarfrumvarp sem lagt er fram með tilteknum fyrirvörum vegna … (Gripið fram í.) Já, ég er búin að …

Herra forseti. Þessi hv. þingmaður sem truflar mig í andsvörum var ekki í salnum þegar ég las upp þann fyrirvara sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur við þetta mál. (Gripið fram í.) Þess vegna eru þessi frammíköll ómarktæk og til þess eins fallin að reyna að koma í veg fyrir að ég geti svarað andsvari. Ég ætla samt að reyna að gera það.

Þær ávirðingar sem hv. þingmaður telur mig vera að bera hér á hæstv. iðnaðarráðherra eru fólgnar í því sem ég sagði og stend við. Það á ekki eingöngu við um hæstv. iðnaðarráðherra, það á líka við um þá tvo þingmenn Suðurkjördæmis sem hér hafa talað og aðra þá sem mælt hafa þessu verkefni bót. Menn leggja fyrst og fremst áherslu á að þetta sé atvinnuuppbygging, enda sagði hv. þingmaður áðan: Það eru 4.000 störf í húfi.

Ég vil leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði, að svo mikil óvissa ríkir um þetta verkefni vegna umhverfismats, vegna orkuöflunar, vegna orkuflutninga, vegna fjármögnunar og ekki síst vegna samdráttar í álframleiðslu og minnkandi eftirspurnar eftir áli í heiminum, að það er fullkomlega ábyrgðarlaust að halda því fram að þetta verkefni verði komið á koppinn — og það viðurkenndi hæstv. iðnaðarráðherra reyndar (Forseti hringir.) áðan.