136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þar er fyrst til máls að taka að ég hef ákveðið að styðja ekki stjórnarfrumvarp um heimild til samninga um álver í Helguvík sem við ræðum hér og hef gert grein fyrir því í þingflokki Samfylkingarinnar þar sem frumvarpið var að sjálfsögðu tekið fyrir en ég sit þar nú sem varamaður. Þessi afstaða mín er rökrétt framhald af fyrri afstöðu til þessa frumvarps eða til tilkynningar um það. Ég hef einnig, ásamt félögum mínum, gert miklar athugasemdir við áætlanir um þetta álver og um orkuöflun til þess.

Stjórnarskráin býður okkur þingmönnum að fylgja sannfæringu okkar. Það gerum við kannski ekki nógu oft en það koma þau mál að sú sannfæring kallar og þá er að hlýða henni.

Að loknum þessum inngangi vil ég fyrst geta þess að hér er um að ræða eitt fyrirtæki og ekki eru almennar reglur um ívilnun við fjárfestingar, hvorki erlendra manna né innlendra, sem kalla mætti eðlilegar en í slíkum almennum reglum mætti vel hugsa sér að skilyrða ívilnun eða ríkisaðstoð, eða hvað menn vilja kalla þetta — ég hygg að þetta yrði kallaður byggðastyrkur í Evrópu — við ýmsa þætti í starfsemi fyrirtækjanna, svo sem þátt þeirra í mengun, orkuverð sem fyrirtækin geta greitt, laun, væntanlegan skatthagnað af fyrirtækjunum, hvort þessi fyrirtæki eða atvinnugreinar auki fjölbreytni í atvinnulífinu o.s.frv. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur hins vegar ekki kosið að búa þetta út heldur fylgir í far hinna fyrri iðnaðarráðherra, einn þeirra situr í salnum, og flytur frumvarp um eitt fyrirtæki og aldrei þessu vant, svo að það sé nú sagt, er það fyrirtæki sem ætlar sér að hefja álbræðslu í landinu en önnur fyrirtæki hygg ég að hafi ekki notið ívilnunar af þessu tagi.

Ég segi þetta vegna þess að það getur auðvitað verið eðlilegt að fyrirtæki sem eiga að endast áratugi, og stundum er talað eins og þau eigi að endast í aldir, njóti ákveðinnar fyrirgreiðslu og öryggis en ég tel að það verði að gilda um alla. Menn verða að geta gert sér grein fyrir því áður en þeir koma, forsvarsmenn slíkra fyrirtækja eða innlendir forsvarsmenn, hvaða reglur gilda hér. Slíkt regluverk þarf að vera röklegt og gagnsætt þannig að einu fyrirtæki sé ekki hyglað í dag en öðru stillt upp fyrir öðrum samningskostum á morgun.

Í öðru lagi er það svo, og leiðir af því sem ég áður sagði, að þegar við eigum að veita um 3 milljarða ríkisstyrk til álversins í Helguvík, miðað við u.þ.b. aldarþriðjung — ríkisaðstoðin nemur 3 milljörðum — þá erum við um leið að mismuna öðrum fyrirtækjum, smærri fyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem kynnu að koma ella, með ákaflega fáum rökum öðrum en að þetta megi. Það eru einu rökin sem færð eru fram í þessu frumvarpi fyrir þessari ívilnun: Þetta má, Evrópusambandið leyfir okkur þetta.

Það er að vísu ekki alveg ljóst að Evrópusambandið leyfi okkur þetta en það er kannski annað mál og það ræðst síðar ef meintur meiri hluti þingsins hefur fram vilja sinn. Það ræðst hjá ESA sem tekur þetta mál fyrir og dæmir um það hvort það passar við þeirra reglur.

En það eru engin önnur rök fyrir þessu en þau að þetta megi og svo að vísu þau líka að slíkur styrkur frá Íslendingum, ríkisaðstoðin, sem þingið á að veita, sé forsenda þess að bandalag fimm banka fáist til að lána Norðuráli fé til að byggja þetta ver. Um leið og þetta er sagt í greinargerð með frumvarpinu kemur það fram að ívilnun fyrstu 20 áranna nemi aðeins 0,9% af stofnkostnaði, sem er ekki hátt hlutfall. Ef ég væri bankastjóri í bandalagi hinna fimm banka mundi ég ekki telja að ég hefði grætt mikið á því að fara og tala við íslensku ríkisstjórnina því að hagurinn er hverfandi og hlýtur að hafa ákaflega lítil áhrif á ákvörðun bankanna að lokum. Ákvörðun þessara banka er alls ekki ljós og frumvarpið er flutt í lausu lofti vegna þess að enginn veit hvað þessir bankar ætla að gera og enginn veit hvort þetta fyrirtæki verður yfir höfuð til þegar frumvarpið hefur verið samþykkt. Ég kem að því síðar í ræðunni.

Ef meiningin væri að fá þetta bandalag fimm banka til að koma hér þá held ég að það mundi kannski skipta meira máli að bjóða þessum herramönnum hingað í laxveiði, sýna þeim landið og vera kammó við þá, sem hæstv. iðnaðarráðherra kann að vera, bæði við innlenda menn og útlenda, með sína hlýju nærveru, frekar en að bjóða þeim þetta smotterí sem þessir peningar og þessi stofnkostnaður (Iðnrh.: Hvað með urriðann?) er í þeirra augum. Forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra ókyrrist í sæti sínu sem er ákaflega óalgengt um hann og ég vona að forseti hafi fulla stjórn á ráðherrabekkjunum.

Það er rétt að önnur álver hafa áður fengið sams konar ívilnun og það er fært hér til og hæstv. iðnaðarráðherra hefur tekið það fram í röksemdafærslu sinni á fjölmiðlavettvangi fyrir þessum samningi, og reyndar flest meiri í krónum eða dollurum. Mér er ekki ljóst af hverju það er en hæstv. iðnaðarráðherra sagði í ræðu sinni að það stafaði auðvitað af breytingum í skattkerfinu. Sumir af þeim sköttum hafa verið lagðir niður núna sem hin fyrri fyrirtæki fengu ívilnun frá. Mín niðurstaða — ég skal taka við leiðréttingum á henni — er líka sú að þetta sé lægra vegna þess að stjórnvöld telji sig nú ekki geta náð hærri styrk í gegnum eftirlitskerfi Evrópska efnahagssvæðisins því að þrátt fyrir að nú sé búið að setja Suðurkjördæmi gervallt sem vanþróað byggðasvæði inn á sérstakt byggðastyrkjakort í EES, öll hin svokölluðu landsbyggðarkjördæmi eru þar inni sem vanþróuð svæði, er óvíst að hægt sé að brjótast í gegnum þessar reglur með þá staðhæfingu að Útnes séu allt annað landshorn en Innes, að Útnes sé vanþróuð byggð en Innes sé hið þróaða höfuðborgarsvæði. Ekki er víst að ESA kaupi þá röksemd og þess vegna er ívilnunin sennilega lægri hér en önnur álfyrirtæki hafa fengið.

Ég sagði að þetta næmi 3 milljörðum og ég vil aðeins skýra þá tölu vegna þess að fundið hefur verið að fyrri staðhæfingum mínum um upphæð þessa styrks og það með réttu því að þá lágu ekki fyrir þær upplýsingar sem eru forsenda þess að reikna þetta, en 3 milljarða fæ ég einfaldlega út frá því svari sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, gaf við fyrirspurn 26. apríl 2006 þar sem hún mat stuðning til Fjarðaáls 34,3 milljónir dala til ótilgreinds tíma og ef maður miðar við sama ótilgreindan tíma, sem mér sýnist vera þriðjungur aldar, þá fást 3 milljarðar út úr þeim tölum sem núverandi hæstv. iðnaðarráðherra gefur upp. Ég tel að núverandi iðnaðarráðherra verði að tala við sína menn í iðnaðarráðuneytinu, þá sem ráðleggja ráðherrum þar, hvernig þeir eiga að svara fyrirspurnum og útbúa greinargerðir, um að reyna að hafa samræmi í þeim tölum sem gefnar eru upp til þess að umræða geti farið fram nokkurn veginn á vitlegum grunni.

Í þessu máli skiptir ekki mestu það sem ég hef hér talið heldur hreinlega það að ég dreg í efa að álver í Helguvík sé heppilegur kostur fyrir okkur Íslendinga, hvorki á þeim erfiðu tímum sem nú eru né fyrr og síðar. Það eru fjölmargar almennar ástæður fyrir því að efast um stóriðjustefnu og álversuppbyggingu síðustu áratuga og ég hef ekki tíma til að fara í þær núna. Það er hins vegar rétt að minna á að við Helguvíkurver er margt óklárað og óljóst sem er með þeim hætti að eðlilegt hefði verið að bíða með þennan fjárfestingarsamning jafnvel fyrir þá sem fylgja þessari uppbyggingu. Umhverfismat sem til er miðast bara við 250 þús. tonna ver en nú er verið að ræða um 360 þús. tonna ver. Getur einhver fullyrt fyrir fram að það umhverfismat sem 360 þús. tonna ver fær sé þannig að verið verði að veruleika? Nei, það er ekki hægt. Menn geta rætt um það fram og aftur en það er ekki þannig. Það umhverfismat hefur ekki farið fram vegna þess að það varð hækkun í hugum forstöðumanna úr 250 þús. tonnum í 360 þús. tonn.

Enn eru ófrágengnar raflínur á svæði sem er ákaflega viðkvæmt fyrir slíkum framkvæmdum, Reykjanesskaginn sjálfur, sem er auðvitað allur saman mikil náttúruperla, og sveitarfélögin þar deila um þessa raflínu.

Í þriðja lagi, sem skiptir enn þá meira máli, er auðvitað það að ekki er líklegt að Helguvíkurverið, og nú skulum við ekki flækja málið á þeim örstutta tíma sem ég á eftir, fari fram úr Kyoto-ákvæðunum en það er ljóst að eftir að Helguvíkurverið er komið, 250 þús. tonn eða 360 þús. tonn, verður enginn losunarkvóti eftir fyrir nokkra aðra losunariðju hér á landi, hvorki á Kyoto-tímanum né eftir að hann rennur út vegna þess að þegar maður lítur yfir það samningaferli þá er alveg ljóst að við fáum engan aukinn kvóta í því dæmi. Með því að samþykkja Helguvíkurverið erum við að taka áhættu á því að öll önnur losunariðja sé frá. Ég er að vísu kannski ekkert óánægður með það í sjálfu sér, en eru þeir sammála mér, félagar okkar, sem við þekkjum ágætlega á þingi, á Húsavík, þeir sem hafa lagt mikla áherslu á álverið á Bakka í Þingeyjarþingi? Ég held ekki.

Það er alveg ljóst, og hefur lengi verið, að ef menn velja Helguvík þá er Bakki út úr myndinni og hættan er í fjórða lagi sú að ef menn velja Helguvík þá sé öll önnur stóriðja líka út úr myndinni, stóriðjan sem menn hafa að gamni sínu kallað sætu stóriðjuna, gagnaverin, kísilflöguverksmiðjurnar, hér á svæðinu kringum höfuðborgina á þessu orkusvæði sem nær frá Reykjanestánni og í raun austur um, nema menn fari, eins og Grétar Mar Jónsson, síðasti ræðumaður, reyndar vildi og krafðist, að virkja ár aftur á Íslandi með öllum þeim látum sem það kostar og taki t.d. neðri hluta Þjórsár. Hv. þingmaður, sem hér talaði áðan, sagði já við Hvítá og hann sagði reyndar líka já við Jökulsá á Fjöllum og sagði já við hverri þeirri á sem nefnd var vegna þess að hann vill ósköp einfaldlega láta virkja allt það sem rennur. Þetta þýðir auðvitað að ef menn ætla að gera meira en Helguvík verða menn væntanlega fyrst að virkja Neðri-Þjórsá og þá er rétt að menn segi það opið og heiðarlega hér að það séu þeir orkukostir sem verið er að etja öðrum út í ef hér á að vera meira.

Í seinni ræðu minni í kvöld ætla ég að fjalla nokkuð um starfarökin sem fram koma. Það er auðvitað gild röksemd að það vanti störf. Einu rökin sem menn hafa fyrir Helguvíkurverunum núna eru í raun og veru þau að það vanti störf og þau rök eru oft sett fram. Ég ætla ekki að deila um þær tölur sem nefndar eru þó að í þær sé hlaupin mikil bólga sem eykst með hverjum ræðumanni en ég vil minna á það, sem hægt væri að flytja langar ræður um, að störf í álverum eru einhver þau óhagkvæmustu miðað við einingu af orku. Nánast öll önnur iðjuver, öll önnur atvinnustarfsemi sem hægt er að skapa með hinum ágætu orkulindum okkar, bjóða okkur upp á fleiri störf og að ýmsu leyti betri störf og a.m.k. grænni störf í samræmi við þá atvinnustefnu sem við þurfum nú að móta á hinu nýja Íslandi.