136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:59]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að segja nokkur orð um það stóra mál sem hér er til umfjöllunar og kannski ekki síst til þess að vekja máls á því hvað þetta er hófstillt umræða og hve mikið hefur breyst á örfáum árum hvað varðar viðhorf hv. þingmanna til framkvæmdar sem þessarar og væntanlega viðhorf Íslendinga til slíkrar framkvæmdar, að þetta skuli vera nánast hallelúja-umræða, að mínu mati, miðað við það sem sú sem hér stendur hefur upplifað fyrr á árum.

Ég vil segja í upphafi, hæstv. forseti, í framhaldi af því sem kom fram hjá síðasta ræðumanni sem er þingmaður Samfylkingarinnar. (Iðnrh.: Hann er varaþingmaður.) Hann er varaþingmaður, hann er flokksbróðir hæstv. ráðherra, en hann lét hér falla orð í lok ræðu sinnar sem ég held að ég verði að biðja hæstv. ráðherra að segja skoðun sína á. Það skiptir mjög miklu máli fyrir mig og örugglega fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hvort þessi hv. þingmaður fór með rétt mál. Hann fullyrti að ef af þessu yrði, þessu verkefni sem hér er til umfjöllunar, væri ekkert um það að ræða að reist yrði álver á Bakka. Hann sagði: Við fáum engan viðbótarkvóta, það er enginn losunarkvóti eftir og það þýðir að það verður ekkert álver á Bakka ef af þessum framkvæmdum verður. Þetta eru stór orð sem þarna voru látin falla og ég hlýt að biðja hæstv. ráðherra að segja skoðun sína á þessu, hvort hv. þingmaður fari þarna með rétt mál. Ég tel að hann geri það ekki en ég þarf að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um það að segja.

Einu sinni var sagt úr þessum ræðustóli, ég held að það sé einhver stysta ræða sem haldin hefur verið á Íslandi, á Alþingi Íslendinga, en ræðan var svona, með leyfi forseta: „Virðulegi forseti. Álverið rísi.“ Það voru bara tvö orð og þá var verið að tala um allt annað álver, að sjálfsögðu, og það var líka þingmaður stjórnmálaflokks sem er ekki lengur til sem þessi orð mælti. Það var þingmaður Borgaraflokksins, Ásgeir Hannes Eiríksson. Mér er þetta minnisstætt. Þetta var að kvöldlagi, alveg eins og við erum nú að tala um þessi stóru mál að kvöldlagi. Þetta var kannski útúrdúr.

Það kom fram áðan að hæstv. ráðherra væri kannski sporgöngumaður þegar hann flytur þetta mál hér vegna þess að þetta er mál sem er svolítið líkt því og kannski mjög líkt því sem áður hefur verið flutt og kannast ég vel við það. Ég vil almennt séð lýsa stuðningi við framkvæmdir sem þessar en geri mér alveg grein fyrir því að okkur eru takmörk sett á Íslandi. Það verður ekki þannig að það verði endalaust byggð ný álver, einhver takmörk eru okkur sett í þeim efnum. Þar að auki vil ég vera það sanngjörn að ég vil segja þegar verið er að ræða svona stórar framkvæmdir að það er ekkert óeðlilegt við það að fólk geti efast en mér finnst hins vegar ekki rétt og ég er ekki sammála síðasta ræðumanni sem sagði að það væri eðlilegt að bíða af því að margt væri óljóst í sambandi við þetta verkefni. Með því að bíða erum við bara að lengja þann tíma þar sem margt er óljóst en með því að samþykkja þetta frumvarp og að Alþingi heimili þessa samninga sem þurfa að fara fram erum við að aðstoða aðila sem vinna að málinu og ekki síst hvað varðar það að fjármagna þetta mikla verkefni. Ég get alveg tekið undir að það er ýmislegt óljóst, t.d. hvað varðar orkuöflun og raflínur og eins að það er ekki búið að fá umhverfismat fyrir stærð álvers sem hér um ræðir. Sérstaklega tel ég að það sé óvissa í orkuöfluninni. Í sambandi við orkuöflun vil ég nefna eitt sem ekki hefur verið nefnt í þessari umræðu og óhætt er að binda vonir við þó að það sé ekki alveg á næstu grösum sem svör fást við því. Ég tel að náist árangur í sambandi við djúpboranir séum við að tala um miklu meiri orku en við höfum reiknað með hingað til að við Íslendingar búum yfir.

Í því ástandi sem nú er á Íslandi, því atvinnuleysi sem við búum við, er eðlilegt að verkefni sem þetta fái meiri stuðning en ella. Ég geri mér grein fyrir því og það er einn þáttur sem hefur áhrif á það að þessi umræða núna er með jákvæðari hætti en oft hefur verið áður. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þetta frumvarp fái afgreiðslu í þinginu á sem skemmstum tíma og það var gott að heyra að hv. iðnaðarnefnd hefur nú þegar fengið upplýsingar og yfirferð í nefndinni á því hvað hér um ræðir.

Það var sagt áðan að þetta væru óhagkvæm störf og látið að því liggja að þau væru þjóðarbúi okkar ekki mikilvæg. Í því sambandi vil ég nefna tölur sem koma fram í svari hæstv. iðnaðarráðherra til þeirrar sem hér stendur, sem gefið var á 135. löggjafarþingi. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Verðmæti útflutningsafurða í stóriðju 2006 var 62.908 millj. kr. Langstærstur hluti þess, eða 57.101 millj. kr., myndaðist í áliðnaði.“

Þetta eru engir smáfjármunir og eftir þau ósköp sem yfir hafa gengið á Íslandi gera menn sér almennt betur grein fyrir því en áður hversu mikilvægt það er að afla gjaldeyris. Til viðbótar þessu get ég sagt að árið 2008 er áætlað að útflutningur áls aukist um 70% að fjármagni, hér er fyrst og fremst verið að tala um tölur frá 2007, og að hlutfall útflutningstekna af álframleiðslu nemi rúmlega 30% af heildarútflutningstekjum. Sem sagt, 30% af heildarútflutningstekjum en ef við tölum bara um vöruútflutning er ál 44,6%. Við erum að tala um gríðarlega mikilvæga atvinnugrein sem menn verða að bera svolitla virðingu fyrir, að mínu mati. Það þarf að skapa verðmæti á Íslandi. Peningarnir vaxa ekki á trjánum og hafa aldrei gert.

Ég vil nefna í lokin, hæstv. forseti, að í sambandi við virkjanaframkvæmdir sem alltaf eru dálítið viðkvæm mál í umræðu heyrði ég hæstv. umhverfisráðherra í útvarpsviðtali í dag tala um að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefði ekki verið neitt forgangsmál hjá hvorki fyrrverandi ríkisstjórn né þeirri ríkisstjórn sem starfaði þar á undan. Vinna við þessa rammaáætlun hófst í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og undir forustu framsóknarmanna þar sem framsóknarmenn fóru þá bæði með iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Hér er um að ræða gríðarlega merkilega vinnu sem hefur vakið athygli á heimsmælikvarða og er grundvöllur þess að við getum áttað okkur á því hvar skynsamlegt og heppilegt er að virkja og hvar ekki. Mér finnst að ekki hafi gengið alveg nógu hratt á síðustu mánuðum með þessa vinnu vegna þess hversu mikilvæg hún er og ég veit ekki hvort hæstv. iðnaðarráðherra getur frætt okkur um það ef hann talar hér á eftir, hvort það sé ekki rétt hjá mér að það hafi dregist eitthvað að ljúka við rammaáætlun. Í upphafi Þingvallastjórnarinnar svokölluðu voru höfð mörg fögur orð um það hversu mikið sú ríkisstjórn ætlaði að hraða þessari vinnu, miðað við þá ríkisstjórn sem áður starfaði. Þetta fór á einhvern allt annan veg, sem var nú heldur verra.

Svo vil ég leiðrétta eitt í lokin, bara svo öllu sé til haga haldið, hæstv. forseti, að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um að skuldabaggar væru miklir vegna stjórnartíðar Sjálfstæðisflokksins í 18 ár. (Gripið fram í: Já.) Ég hafði það held ég rétt eftir. Þá vil ég minna á að þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fór frá var búið að greiða niður nánast allar skuldir ríkissjóðs. Það var nú ekkert annað en það. (Gripið fram í.) Það fór bara öll orka í það meira og minna í þau 12 ár sem Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn, að borga niður skuldir. Þess vegna var maður óskaplega stoltur árið 2007 þegar kosið var af því hversu vel við höfðum staðið okkur í því að borga niður skuldir. Síðan gerast þessi ósköp á síðasta ári sem ég þarf ekki að endurtaka hér og gera það að verkum að við erum aftur sokkin í skuldir. Engu að síður skiptir máli að vel var staðið að verki hvað þetta varðar á þessum tíma.

Hæstv. forseti. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra hafi heyrt þegar ég spurði hann hvort hann væri sammála flokksbróður sínum um að það væri ekkert um Bakka að ræða ef samningar næðust vegna álvers í Helguvík. Það er gríðarlega mikilvægt mál og getur haft áhrif á það hvernig ég greiði atkvæði í þessu máli.