136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:18]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú vill svo til að sami ráðherrann — sem ekki hlustar á mig — og fer með iðnaðar- og orkumál, og flytur það mál sem hér er til umfjöllunar, fer líka með ferðamál í dag. Þegar hv. þingmaður er að tala um að ferðaþjónustan sé vanrækt atvinnugrein hlýtur hann að taka það til sín og fyrrverandi ferðamálaráðherra er þarna líka og hann hefur þá kannski ekki staðið sig nógu vel. En ég er sammála því að ég held að ferðaþjónustan hafi orðið svolítið út undan í almennri umræðu um atvinnumál á Íslandi, hún á einhvern veginn að bjarga sér sjálf. En okkur eru líka settar skorður með atvinnugrein eins og ferðaþjónustu ef við erum að hugsa um styrki. Eins og hv. þingmaður veit þá er samkeppnisrekstur ekki styrktur af hálfu Evrópusambandsins og ekki heimilað, nema þá í einhverjum litlum mæli, að styrkja slíka starfsemi af því að hún telst vera í samkeppni. Þetta er oft ekki alveg einfalt.

Ég vil líka segja, af því að ég svaraði því ekki áðan — hv. þingmaður bað mig að svara því hvernig ég liti á þessi mál hvað varðar Bakka, hvort verið væri að útiloka Bakka með því að þessi framkvæmd kæmist á — að búið var að reikna þetta út á sínum tíma þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu og þá sáum við það fyrir okkur að fram til 2012 væri ekki nein hætta á því að við færum fram fyrir heimildir okkar en síðan vitum við ekki á þessari stundu hvað tekur við og af því hef ég áhyggjur.