136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki gefst tími til þess í stuttu andsvari að fara yfir aðdraganda þeirrar djúpu efnahagskreppu og þeirrar skuldasúpu sem við sitjum í. En þau eru athyglisverð, orð hv. þingmanns um að e.t.v. hafi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verið óheppin með kaupendur að bönkunum. Einkavæðing, sögðu sumir, einkavinavæðing, sögðu aðrir. Það er alveg ljóst að þarna var helmingaskiptaregla viðhöfð milli stjórnarflokkanna og verðið, andvirðið sem greitt var fyrir þessa banka, var í engu samræmi við það sem eðlilegt hefði verið. Eitt er víst að ef ríkissjóður hefði áfram átt þessa banka er ekki víst að þeir hefðu vaxið svona, ég tek alveg undir það með hv. þingmanni. Ég vil bæta því við að ég er sannfærð um að ef ríkissjóður hefði áfram átt þessa banka, eða eitthvað í þeim, hefði þeim ekki tekist að setja okkur svona rosalega á hausinn eins og við nú erum.

Ég nefndi í ræðu minni í kvöld að með þeim samningi sem hér er um að ræða væri verið að girða fyrir tekjuöflun ríkissjóðs til frambúðar. Það er augljóst að við þurfum að hækka skatta en það mál sem hér liggur fyrir — í því er innibyggt að ekki verður hægt að hækka tekjuskatt á þetta eina fyrirtæki jafnvel þó að tekjuskattsprósenta yrði hækkuð í 18% á öllum öðrum fyrirtækjum í landinu, þar á meðal á þeim tveimur álverum sem hér hafa verið umræðu á Reyðarfirði og Grundartanga. Ég vil spyrja hv. þingmann, fyrrverandi hæstv. ráðherra, hver hennar viðbrögð við því atriði eru.