136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég lauk ræðu minni áðan á því að tala um störf og vil ljúka þeirri umræðu, hún getur ekki orðið löng af ástæðum sem birtast á klukkunni fyrir framan mig.

Þegar umræða hefst um störfin eru aldrei settir fram kostir. Það hefur verið venjan í umræðum um stóriðjuuppbyggingu að segja: Þetta eða ekkert. Eða: Þetta eða eitthvað annað. Þetta „eitthvað annað“, það eru andstæðingarnir sem eiga að koma með þetta „eitthvað annað.“ Það er aldrei sagt: Hvort viljið þið heldur þetta álver hér eða gagnaver og kísiliðjur? Það er heldur ekki sagt um þær miklu framkvæmdir sem eiga að bjarga atvinnuleysinu á Suðurnesjum og víðar: Þetta eru bara mannfrekar framkvæmdir, því að það sem eftir verður eru vissulega 500 störf en þó ekki nema 500 störf. Þá er ekki sagt: Viljið þið þessar mannfreku framkvæmdir eða viljið þið einhverjar aðrar mannfrekar framkvæmdir?

Nú ætla ég ekki að tala hér um lánamál en það er sem sé ekki þetta sem menn spekúlera í: Viljið þið störf í byggingariðnaði eða viljið þið störf í sprotafyrirtækjum? Það er ekki það sem menn tala um heldur er keyrður fram þessi eini samningur. Það hefur verið gert með miðstöð í Keflavík annars vegar og hins vegar í fjármálaráðuneytinu í tíð síðustu ríkisstjórnar með þeim hætti að ekki er hægt að kalla það annað en enska orðinu „blackmail“, vegna þess að íslenska orðið „fjárkúgun“ er of gagnsætt fyrir þessa tegund af röksemdum, skulum við kalla það. Ef þú hefur athugasemdir við eitthvað ertu á móti störfunum og ef þú hefur athugasemdir við það ertu með fátækt. Þá ertu með atvinnuleysi og þá ertu með upplausn fjölskyldunnar, þá viltu börn á vergang, þú vilt alkóhólisma, þú vilt almenna niðurlægingu mannskepnunnar fyrst þú vilt ekki þetta álver. Þetta eru umræðukostirnir sem heilbrigt, viti borið fólk setur fram hér í samfélaginu.

Ef maður svarar þessu með sama hætti, mætti með svolitlum ýkjustíl segja: Ja, mundi það ekki skapa fyrir okkur störf ef við byðumst til að geyma geislavirkan úrgang í Loðmundarfirði? Það mundi örugglega skapa mörg störf og verða feikilega vinsælt atvinnufyrirtæki annars staðar en á Íslandi. Mundi það ekki skapa ofsalega mörg störf í þessari stöðu ef við byðumst nú til þess að bjarga Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og taka að okkur Guantanamo-fangelsið og setja það niður í Hnífsdal? Það mundi skapa alveg feikilega mörg og vel launuð og örugglega hámenntuð störf, því að menn þurfa að vera sérstakir rafmagnstæknifræðingar til þess að vera fangaverðir í Guantanamo. Eigum við ekki að taka það, eru það ekki fín störf? Svona mætti halda áfram. (Gripið fram í.)

Starfaröksemdin ein og sér gildir ekki, hún er bara of heimskuleg. Spurningin er um atvinnuuppbyggingu, almennt um heildarstefnuna sem við tökum í þessu efni, en ekki um að eitthvað skapi svona mörg störf og þeir sem hafi athugasemdir við þá tegund af fyrirtæki eða þá tegund af orkuöflun séu með atvinnuleysi, fátækt, alkóhólisma og börnum á vergangi.

Ég hef ákveðið, vegna vinsemdar minnar við hæstv. iðnaðarráðherra og velvilja í garð þeirrar ríkisstjórnar sem þetta mál flytur, að trufla ekki gang þess til iðnaðarnefndar sem ég hef þó rétt til samkvæmt þingsköpum. Ég geri það í trausti þess að í iðnaðarnefnd verði farið í gegnum þær röksemdir sem hér hafa komið fram, m.a. í máli mínu og annarra sem hafa rætt um frumvarpið — þá hlýt ég að nefna hv. þm. Álfheiði Ingadóttur — og í trausti þess að iðnaðarnefnd ræði almennt um þjóðhagslega hagkvæmni af álverinu. Þar þarf iðnaðarnefnd m.a. að hafa í huga umræður hagfræðinga um þetta mál, t.d. prýðilega grein Sigurðar Jóhannessonar í bókinni Uppbrot hugmyndakerfis sem kom út í fyrra. Iðnaðarnefnd þarf að fara rækilega í gegnum svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn minni í fyrra og þá þarf nefndin einnig að fara í gegnum grein Indriða H. Þorlákssonar, núverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum.“

Þar þarf iðnaðarnefnd og þingheimur allur að fara í gegnum ögrandi og ágæta grein Ágústs Þórhallssonar á vefsíðunni AMX, sem heitir þessu nafni hér í spurnarformi: „Munu lánardrottnar Century Aluminum taka yfir Norðurálsverkefnið?“ Þar setur Ágúst fram þá spurningu hvort Norðurál eða fyrirtækið Century Aluminum verði yfir höfuð til eftir nokkrar vikur vegna þess að gengi hlutabréfa í félaginu hefur lækkað nánast niður í ekki neitt á undanförnum dögum. (Forseti hringir.) Þetta þarf iðnaðarnefnd að athuga og svo skulum við taka málið fyrir, eftir þessa miklu rannsókn, í 2. umr. um frumvarpið nema því (Forseti hringir.) verði frestað, sem ég tel langhentugast (Forseti hringir.) þangað til ný ríkisstjórn tekur við með nýja atvinnuuppbyggingu eftir kosningar.