136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þær góðu ábendingar sem hann kom með til hv. iðnaðarnefndar, sem á eftir að fara vandlega yfir frumvarpið. Þarna lagði þingmaðurinn inn margháttuð gögn sem nefndin mun að sjálfsögðu fara mjög ítarlega yfir og skoða, fái ég nokkru um það ráðið.

Ég vil líka vekja athygli á því, og til þess er för mín í þennan ræðustól ætluð, að ég hef óskað eftir því og mun óska eftir því í hv. iðnaðarnefnd að hv. efnahags- og skattanefnd fái málið einnig til umfjöllunar vegna þess að ég tel, eins og ég hef margoft komið að hér áður, að þessi samningur sé mjög alvarleg atlaga að ríkissjóði næstu 20 árin vegna þess að við vitum að við þurfum að hækka hér skatta á komandi árum. Með þessum samningi er verið að girða fyrir að hægt sé að hækka skatta á einmitt þetta fyrirtæki eða þennan iðnað.

Það er því alveg augljóst að það á eftir að skoða málið mjög vandlega í þessum tveimur nefndum, að mínu viti.