136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

staða heimilanna.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þá kortlagningu sem hefur farið fram á vegum Seðlabankans á skuldastöðu heimilanna tel ég afar mikilvæga. Þetta er í fyrsta skipti sem farið er í slíka kortlagningu og það er rétt, sem fram kom hjá hv. þingmanni, að henni er ekki lokið vegna þess að inn í þær bráðabirgðaniðurstöður sem nú liggja fyrir vantar mikilvægar upplýsingar eins og varðandi yfirdráttarlánin og lífeyrislán, ef ég man rétt. Engu að síður tel ég stöðuna eins og hún er upplýst af hálfu Seðlabankans alvarlega. Um 20% af þeim sem voru í þessari úttekt, af um 80 þúsund heimilum, eru í mjög alvarlegri stöðu, eiginfjárstaðan er neikvæð, og rúmlega 20% stefna í neikvæða eiginfjárstöðu. Það er því alveg ljóst að taka þarf á þessum málum með skipulögðum hætti.

Við höfum farið yfir þetta í ríkisstjórninni og einstaka ráðuneytum sem fara með þessi mál. Við höfum farið yfir þau úrræði sem liggja hér fyrir þinginu til þess að taka á greiðsluvanda heimilanna ásamt þeim viðbótarúrræðum sem hafa verið til umfjöllunar í ríkisstjórninni. Við teljum að miðað við þann vanda sem við er að glíma muni þau úrræði sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og þau sem eru ókomin hér inn í þing — sum viðbótarúrræði þarf ekki að lögfesta, við fórum yfir það í morgun — duga til þess að aðstoða og hjálpa þeim heimilum sem eru í erfiðastri stöðu.

Við teljum ekki rétt að fara þá leið sem framsóknarmenn hafa lagt til, sem er flöt afskrift af öllum lánum um 20%. (Forseti hringir.) Við teljum það ekki vera skynsamlega leið í þessari stöðu.