136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

staða heimilanna.

[10:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Aftur og aftur hefur það komið fram í orðum hæstv. forsætisráðherra að hún telji þetta ekki vera skynsamlega leið en hún hefur því miður ekki komið með neina sérstaklega góða tillögu um það hvaða leið hún telur skynsamlega. Slík tillaga kemur ekki fram í svörum hæstv. forsætisráðherra um það hvernig hún sjái fyrir sér að hægt verði að skipa umsýslumenn fyrir 30 þúsund heimili í landinu, eða rúmlega það — ætlunin er að viðkomandi umsýslumaður taki að sér að skilgreina hvers konar greiðslubyrði viðkomandi fjölskylda á að bera, alla vega miðað við það hvernig ég hef skilið væntanlegt frumvarp dómsmálaráðherra.

Ég vil líka benda á að ekki er langt síðan hér var Suðurlandsskjálfti og því hruni sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi má líkja við jarðskjálfta, hér hafa orðið hamfarir. Margir urðu fyrir tjóni, sumir fyrir stórfelldu tjóni, í stórum húsum eða litlum, og sumir fyrir litlu eða engu tjóni en hins vegar var öllum bætt tjónið.

Verðtryggingin hefur verið að hlaða (Forseti hringir.) 20% ofan á höfuðstól sérstaklega verðtryggðu lánanna og enn þá meiru varðandi gengistryggðu lánin. (Forseti hringir.) Ég bara spyr enn á ný: Hvernig í ósköpunum sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að hægt verði að gera eitthvað fyrir fjölskyldurnar?