136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

staða heimilanna.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Við þær aðstæður sem nú eru í íslensku þjóðfélagi er mjög mikilvægt að tvennt fari saman, að öllum sem þurfa á hjálp að halda sé hjálpað og ekki séu valdar leiðir sem séu ríkissjóði ofviða. Það getur verið að það þurfi að hjálpa mörgum um meira en 20% afskrift, sem er flöt afskrift hjá framsóknarmönnum, það getur vel verið að afskrifa þurfi miklu meira hjá sumum. En sumir þurfa ekki á neinni afskrift að halda. Þeir sem eru með háar tekjur og bærilega greiðslubyrði, af hverju á að vera að taka 20% niður af þeirra skuldum? Ég fæ ekki skilið af hverju á að gera það.

Af hverju eigum við ekki frekar að nýta fjármagnið til að gera meira fyrir þá sem á því þurfa að halda heldur en að fara í svona flata afskrift? Fólk sem er með 1–2 milljónir í tekjur á mánuði og skuldar kannski 10 eða 20 milljónir, á virkilega að fara að afskrifa hjá því nokkrar milljónir? Mér finnst það ekki skynsamlegt, ekki síst af því að það eru (Forseti hringir.) skattgreiðendur sem í lokin þurfa að bera þetta.