136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

útboð í vegagerð.

[10:47]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Við skulum hafa það í huga að verktakar vita af útboðsþingi, hvaða verk koma til útboðs og hvenær. Ég var að tala um ýmis verk á höfuðborgarsvæðinu sem verða boðin út, vonandi á næstunni. Ég er búinn að geta um nokkur en ég vil einnig geta þess að við höfum talað um að allt að 700 millj. kr. fari til ýmissa minni verka þar eins og sérstakra strætisvagnaafreina o.fl. Það mun brátt fara í útboð. En það sem ég var að tala um áðan, virðulegi forseti, er að Bræðratunguvegur mun örugglega koma til útboðs núna næstu daga og nokkur fleiri verk sem komið hafa inn.

Virðulegi forseti. Ég vil líka geta um eitt samgöngumannvirki í viðbót sem ekki hefur verið mikið rætt um en það er hugmynd að byggingu samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Það verk er að mínu mati í ágætisfarvegi milli mín og borgarstjóra. Vonandi getum við klárað viljayfirlýsingu jafnvel í þessari viku þar sem stigin verða góð skref í þá átt (Forseti hringir.) hvort við fáum að byggja og hvar. Ef við fáum að byggja samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll getum við jafnvel hafið þær framkvæmdir strax á þessu ári.