136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

skerðing almannatrygginga vegna fjármagnstekna.

[10:54]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Sem hluti af ráðstöfunum í ríkisfjármálum rétt fyrir jól voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar. Breytingin varðaði áhrif fjármagnstekna ellilífeyrisþega á upphæð lífeyris almannatrygginga. Í stað þess að fjármagnstekjur skerði bætur almannatrygginga um 50% voru gerðar breytingar í þá veru að þær skerða um 100%. Frítekjumark á fjármagnstekjur eru samt sem áður um 100 þús. kr. á ári eða um 8 þús. kr. á mánuði.

Í ræðu á Alþingi í tengslum við þessar breytingar sagði hæstv. núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi félagsmálaráðherra um þessa breytingu eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við förum líka út í það að fjármagnstekjuskattur sem skerðir bætur almannatrygginga um 50% skerðir þær nú um 100%. Ég spyr: Er það eitthvað sem hægt er að gera ofboðslega mikið veður út af í þeim hremmingum sem við erum í? Ég held ekki, virðulegi forseti.“

Það sagði hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra og núverandi forsætisráðherra.

Nú síðustu daga hefur komið fram veruleg gagnrýni á þessa breytingu og áhrif hennar á kjör aldraðra. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins sl. þriðjudag fengu um 30 þúsund eldri borgarar bréf frá Tryggingastofnun ríkisins í byrjun árs þar sem þeim var tilkynnt að þeir hefðu fengið hærri bætur en þeir áttu rétt á. Samið var um endurgreiðslu vegna þessa og var heildarupphæðin tæpar 300 millj. kr.

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara hefur mótmælt kröftuglega og hefur kallað endurkröfur TR ranglátar, þeir segja þær byggjast á óskiljanlegum og óréttlátum reglugerðum og lögum. Í þessu máli hefur sérstaklega verið gagnrýnt að verðbætur teljist til fjármagnstekna í skilningi almannatryggingalaga. Í þeirri verðbólgu sem ríkt hefur á undanförnum mánuðum er varhugavert að líta á verðbætur á sama hátt og vexti þar sem þær eru ekki ávöxtun heldur eru þær hugsaðar til að innstæður rýrni ekki. Verðbætur sem eiga að halda í verðbólguna eigi því alls ekki að skerða lífeyri almannatrygginga, þær eigi að halda í við hækkandi verðlag.

Ég get tekið undir þessa gagnrýni og get einnig skilið eldri borgara, að þeir séu svekktir vegna þessa. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort gengið hafi verið of langt í lagasetningu fyrir jól og hvort ástæða sé til að endurskoða hvort verðbætur eigi að falla undir fjármagnstekjur.