136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

álver í Helguvík.

[11:01]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini orðum mínum til hæstv. forsætisráðherra. Það er eiginlega út af formsatriði og varðar mál sem var til umfjöllunar í gærkvöldi og er frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík. Nú hefur komið fram í umræðunni og hefur komið fram í fjölmiðlum einnig að annar stjórnarflokkurinn styður ekki málið. Þá velti ég fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra sem ber ábyrgð á störfum ríkisstjórnar og er æðsti ráðherrann hafi eitthvert lögfræðiálit undir höndum sem styðji það að þetta sé samkvæmt venju og samkvæmt hefðum og standist þau lög og reglur sem starfað er eftir á hv. Alþingi og innan Stjórnarráðsins eða hvort þetta hafi komið henni á óvart og hvort þá þurfi hugsanlega að flytja nýtt mál. Nú er ég ekki að efast um að þetta þingmál hafi meiri hluta á Alþingi en spurningin er hvort það gangi að einungis annar stjórnarflokkurinn standi að stjórnarfrumvarpi. Nú er hæstv. forsætisráðherra þingreyndasti þingmaðurinn á hv. Alþingi og hefur auk þess setið mjög lengi í ríkisstjórn. Ég veit að hún vill ekki hafa nein lausatök hvað varðar hefðir og venjur Alþingis og Stjórnarráðsins og ég vil því gjarnan fá að heyra hvort hún hafi velt þessum spurningum fyrir sér.