136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Icesave-málið er líklega eitt stærsta og mikilvægasta hagsmunamál sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir á síðari tímum. Ríkisstjórnin verður að taka sig saman í andlitinu, það er lítið að gerast í málinu þó að hagsmunirnir séu gríðarlegir. Ég hef margoft sagt að ríkisstjórnin þurfi að endurskoða frá grunni aðgerðir vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna. Í því máli verður að verjast af hörku og ég hef verið harður talsmaður þess að farið verði í mál við Breta vegna Icesave-deilunnar. Ég hef sagt að til þess sé nauðsynlegt að leitað verði til færustu sérfræðinga og samningamanna sem hafa reynslu af samningaviðræðum sem þessum. Það hefur því miður ekki verið gert. Slíkt er ekki ásættanlegt, herra forseti, og ég gagnrýni ríkisstjórnina harðlega fyrir viðbrögð sín í Icesave-málinu.

Tveir valinkunnir lögfræðingar, Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti, og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, hafa einnig gert það í blaðagreinum í Morgunblaðinu og furða sig á því hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki haldið fram lagalegum rétti Íslendinga í málinu gagnvart Bretum í máli sem varðar hagsmuni okkar Íslendinga, allt að 600 milljarða kr., og auk þess leynt þingið lögfræðilegum álitsgerðum sem unnar hafa verið vegna málsins.

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum leitar ríkisstjórnin ekki til þessara sérfræðinga til að gæta hagsmuna okkar í málum gegn Bretum? Það er óskiljanlegt að það hafi ekki verið gert.

Eitt það versta við framgöngu utanríkisráðherra í Icesave-málinu er það pukur og sú leynd sem hvílt hefur yfir málinu. Við þingmenn þurftum t.d. að sætta okkur við það að sjá í viðtali á sjónvarpsstöðinni Skjá 1 að hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði átt leynifund um Icesave-málið við utanríkisráðherra Breta, David Miliband. Hvorki þjóðin sem þarf nú hugsanlega að greiða þessi ósköp né þingið fá að vita neitt um það hvað fór fram á þessum fundi og ríkisstjórnin skuldar þinginu og þjóðinni (Forseti hringir.) skýringa á því hvað þar fór fram. Herra forseti. Það er ekki valkostur að skuldbinda ríkið og kynslóðir framtíðarinnar um allt að 600 milljarða króna og ríkisstjórnin verður að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að það verði gert.