136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Íslensk þjóð varð fyrir fimm áföllum í fyrrahaust: eignahrun, keðjuverkun gjaldþrota með atvinnuleysi í kjölfarið, jöklabréfin, Icesave og kröfuhafar bankanna. Fyrstu þrjú áföllin munum við greiða með herkjum. Síðustu tvö áföllin eiga íslenskir skattgreiðendur ekki að greiða en eru neyddir til þess, annars vegar af ESB sem beitti okkur viðskiptastríði þó að um galla í regluverki þess sé að ræða og hins vegar lánardrottnum bankanna sem segja Íslendinga geta gleymt því að taka lán um allan heim næstu 25 árin nema eitthvað sé gert vegna neyðarlaganna.

Mikilvægt er að þessar óréttmætu kröfur steypi þjóðinni ekki í skuldir sem hún ræður ekki við til viðbótar við hin áföllin. Það gagnast ekki þessum erlendu aðilum, heldur er það hagur þeirra og allra að íslensk þjóð standi sterk og geti borgað. Þess vegna krefst ég þess að þessi mál verði leyst sem ein heild. Ég krefst þess enn fremur að leyndarhjúp verði aflétt af þessum málum og við fáum að vita hvað búið er að semja eða gefa loforð um. Varðar það hæstv. fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra? En þessi ráðuneyti virðast vinna hvert í sínu skoti að lausn sem hver um sig er viðráðanleg en kaffærir þjóðina þegar þær koma saman. Við eigum ekki að borga þessar kröfur og þess vegna er eðlilegt að setja efri mörk á þær í heild sinni sem við ráðum við og það er fráleitt að við greiðum einhverja vexti af þessum óréttmætu kröfum eins og gerð er krafa um.