136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er vissulega lagður þrýstingur á það að þessu máli sé hraðað og á einum tímapunkti var talað um að menn ætluðu sér um það bil sex mánuði til að leiða það til lykta, í framhaldi af undirritun hinna sameiginlegu viðmiða ef ég man rétt. Engu að síður er það þannig að gagnaðilar okkar þekkja til aðstæðna á Íslandi. Þeir vita hvað hér hefur gerst, þeir vita af stjórnarskiptum, þeir vita af kosningum þannig að það er skilningur á hinn bóginn á því í hvaða aðstöðu við erum.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um upplýsingar spái ég því að þegar að því kemur að gögn um rannsóknir á orsökum og aðdraganda þessa Icesave-máls og hvernig það þróaðist í framhaldinu verða aðgengileg muni það þykja fróðleg lesning. Ég hef lagt ríka áherslu á það við samninganefndina að sérstaklega verði vandað til utanumhalds á öllum skjölum og öllum gögnum og bókhaldskerfi ráðuneytis notað til að tryggja að þar verði allt aðgengilegt en á meðan á samningaviðræðum stendur verða menn að sjálfsögðu að hafa ýmis slík gögn í sínum fórum.

Mér þykir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nokkuð kokhraustur. Hann vill endurskoða aðferðafræði í málinu frá grunni og hann vill fara í mál við Breta. Hv. þingmanni yfirsést að það var hans eigin ríkisstjórn sem féll frá því að höfða mál gegn Bretum 7. janúar sl. Það kann að vera að það hafi verið í andstöðu við hv. þingmann en það er þá þannig.

Það er einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið sjálfum sér samkvæmur í gegnum allt þetta mál í málflutningi og afstöðu, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann greiddi atkvæði gegn málinu á sínum tíma og málflutningur hans hefur samræmst því allan tímann.

Ég veit ekki betur en að allar lögfræðilegar álitsgerðir sem enn eru til séu í höndum utanríkismálanefndar og ég endurtek það sem ég sagði um samstarf við nefndina. Samninganefndin mun fá þá lögfræðilegu aðstoð sem hún telur sig þurfa á að halda. Það verður séð um það, hvort sem það verða innlendir eða erlendir lögfræðingar, en ég vek þó athygli á að þrír af sex nefndarmönnum eru lögfræðingar sjálfir. (Forseti hringir.)

Að lokum skiptir að sjálfsögðu öllu sem hér hefur verið réttilega bent á að niðurstaðan í þessu máli verði viðráðanleg fyrir íslenskt þjóðarbú. Þar vinnur það vissulega með okkur (Forseti hringir.) að vextir fara lækkandi og það má ætla að við getum náð hagstæðari kjörum nú en við hefðum gert fyrir nokkrum mánuðum, sérstaklega hvað þann þáttinn varðar.