136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[11:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002 um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Þetta er 397. mál þingsins á þskj. 675.

Þær breytingar sem eru fólgnar í frumvarpinu lúta að tvennu: Í fyrsta lagi er verið að afla heimilda til að veita styrki til að taka í notkun varmadælur og aðra umhverfisvæna tækni sem nota má til húshitunar á svæðum sem því miður búa ekki við hitaveitu. Í öðru lagi er líka verið að afla heimilda til að veita styrki til endurbóta á íbúðarhúsnæði og raunar almennt til orkusparandi aðgerða.

Ég legg mikla áherslu á það, frú forseti, að þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir því að útgjöld ríkisins aukist. Það má segja að markmið þeirra breytinga sem ég mæli fyrir og legg til í frumvarpinu séu þríþætt:

1. Að draga úr húshitunarkostnaði þeirra íbúa sem ekki njóta hitaveitna.

2. Að draga úr kostnaði ríkissjóðs til langs tíma.

3. Að stuðla að fjölgun starfa, einkum á meðal iðnaðarmanna.

Þinginu er vel kunnugt um að ríkissjóður ver á hverju ári umtalsverðum fjármunum til að greiða niður húshitun. Einnig ver hann nokkrum upphæðum til að veita styrki til byggingar nýrra hitaveitna, jarðhitaleitar og orkusparnaðar og ég rifja upp að styrkirnir sem felast í eingreiðslu til nýrra hitaveitna byggja á því að þar er safnað saman útreiknuðum 8 ára niðurgreiðslum á viðkomandi svæði og það er sem sagt andlag stofnstyrksins.

Á þessu ári er á fjárlögum heildarfjárveiting til þessara verka 1 milljarður og 177 millj. kr. og eins og lög kveða á um er gert ráð fyrir að um 950 millj. kr. renni til að greiða niður rafhitun. Markmið þeirra breytinga sem ég legg til með frumvarpinu er að draga úr raforkunotkun til húshitunar með tvennum hætti og um leið að efla atvinnuskapandi framkvæmdir. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að í fyrsta lagi verði heimilt að verja 3% af fjárlagaliðnum til orkusparnaðar í stað 1% eins og nú er. Það felur í sér að alls um 35 millj. kr. yrðu til ráðstöfunar í þessu skyni í stað 12 millj. kr. ef lögin stæðu óbreytt. Ætlunin er að þeim fjármunum yrði m.a. varið til að veita styrki til húseigenda sem hafa áhuga á því að bæta einangrun húsa sinna og draga þannig úr þörfinni fyrir niðurgreiðslur. Það hefur verið sýnt fram á það með útreikningum sem Orkusetrið á Akureyri hefur gert að þetta er ákaflega vel til þess fallið. Hluta þessara fjármuna yrði þó varið til almennra orkusparandi aðgerða, eins og í opinberum byggingum ríkis og sveitarfélaga, og þær aðgerðir mundu að sjálfsögðu draga úr kostnaði við orkunotkun en líka stuðla að fjölgun viðhaldsverkefna fyrir iðnaðarmenn.

Ég nefndi áðan Orkusetur iðnaðarráðuneytisins sem staðsett er á Akureyri en ætlunin er að verkefninu yrði stýrt af því. Ég kom inn á það í ræðu í síðustu viku að setrið hefur einmitt staðið fyrir mjög merkilegu tilraunaverkefni í samráði við bæjarfélag á utanverðu Snæfellsnesi sem gaf niðurstöðu sem gefur mér tilefni til að ætla að ríkulegan ávinning megi hafa af verkefninu. Samstarfsaðilarnir yrðu m.a. Íbúðalánasjóður, sem er reiðubúinn til að lána fé og hefur lánað flokka til orkuviðhalds af þessu tagi, Atvinnuleysistryggingasjóður, Framleiðnisjóður landbúnaðarins eftir atvikum og Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum.

Íbúðalánasjóður hefur heimildir til að veita lán til endurbóta og í einhverjum tilvikum gæti líka verið um að ræða átaksverkefni sveitarfélaga sem nytu þá stuðnings Atvinnuleysistryggingasjóðs eins og önnur verkefni, sem eru beinlínis til að koma nýtilegum hlutum fram og skapa um leið atvinnu.

Loks tel ég að einnig kæmi til greina að Framleiðnisjóður veitti styrki til bænda vegna verkefna á þessu sviði. Það hefur verið rætt við hann og undirtektir verið ákaflega jákvæðar. Aukningin til liðarins er því hugsuð þannig að fjárveiting verði eins konar hvati, örvun sem ýtir fólki af stað út í þetta verkefni og síðan yrði það fjármagnað að öðru leyti, m.a. með lánum frá Íbúðalánasjóði.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að greiðsla stofnstyrkja verði ekki eingöngu bundin við byggingu nýrra hitaveitna heldur gefist íbúðareigendum almennt kostur á styrkjum til umhverfisvænnar orkuöflunar til húshitunar, fyrst og fremst í framhaldi af ýmissi undirbúningsvinnu af hálfu stofnana iðnaðarráðuneytisins á síðustu árum og ekki síst í ljósi annars tilraunaverkefnis á vegum Orkuseturs, sem ég hef áður reifað í ræðu á Alþingi, um aukna notkun á varmadælum. Varmadælur hafa þróast mjög ört á síðustu árum. Mikið atgervi hefur verið lagt í að hanna nýjar tegundir og tæknibreytingar hafa komið fram í heiminum sem gera það að verkum að þetta verður stöðugt fýsilegri kostur og stórborgir, eins og t.d. Stokkhólmur í einu af okkar góðu grannlöndum, eru farnar að ná töluverðum hluta af þeirri orku sem þarf til að hita híbýli í gegnum stórar og vel útfærðar varmadælur.

Í öðrum tilvikum kunna aðrir kostir að vera fýsilegir, eins og t.d. viðarkynding. Ég nefni tilraunir sem menn hafa verið að gera austur á Hallormsstað í þeim efnum en líka vindmyllur og vek eftirtekt á því að undir forustu orkuráðs hefur tekist að hvetja fólk til að hefja notkun vindmyllna til að framleiða rafmagn og í einu tilviki er mér kunnugt um að slík hvatning í formi styrks frá orkuráði úr Orkusjóði leiddi til þess að góður bóndi í nágrannasveit Reykjavíkur setti upp slíka vindmyllu og er byrjaður að selja inn á kerfið. Mér er líka kunnugt um að það framtak leiddi til þess að mjög margar fyrirspurnir bárust sænsku fyrirtæki sem selur myllur af þessu tagi, svo margar að fyrirtækið taldi það svara kostnaði að setja upp sérstaka heimasíðu á íslensku.

Mér finnst líka rétt að vekja eftirtekt á því, frú forseti, að á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar fer fram viðamikil athugun á því hvort hægt sé að nota varmadælur til húshitunar í Vestmannaeyjum. Varmalindin sem þar er freistað að beisla er hafið. Sjórinn við suðurhluta Íslands er það hlýr að með tækni sem verið er að útfæra og þróa af hálfu útibús Nýsköpunarmiðstöðvar í Vestmannaeyjum og með sérfræðingum í höfuðstöðvum telja menn að hugsanlegt sé að í framtíðinni verði hægt að hita upp töluverðan hluta Vestmannaeyjabæjar með þessum hætti. Það er ákaflega merkilegt. Það er í fyrsta skipti sem slíkt yrði gert en Vestmannaeyingar hafa auðvitað áður brotið í blað. Þeir settu á fót fyrstu hraunhitaveitu í heiminum. Eins og menn rekur minni til, var eftir gosið í Eyjum sett á fót hraunhitaveita sem stóð undir töluverðu af húshitun í Vestmannaeyjum um eins áratugar skeið. Það er lagt til í frumvarpinu — og ég held að það sé mjög skynsamlegt — að styrkirnir sem á að nota til að ýta undir umhverfisvæna orkuöflun verði reiknaðir út með sama hætti og nú er gert varðandi nýjar hitaveitur, þ.e. eingreiðsla sem byggist á 8 ára niðurgreiðslum vegna hitunar með rafmagni. Við þá útreikninga þarf að hafa í huga og miða við að varmadælur nota rafmagn og þess vegna er gert ráð fyrir því að notendur þeirra njóti áfram niðurgreiðslna á því rafmagni sem þarf til að knýja dælurnar.

Frú forseti. Ég tel engin sérstök efni til að hafa frekari ræður af minni hálfu um efni frumvarpsins en legg til að samþykkt verði að lokinni umræðunni að vísa því til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.