136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[11:59]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur áður reifað þessi mál í fyrirspurnum til mín og ég held að ein ósvöruð fyrirspurn liggi fyrir sem varðar þetta mál frá hv. þingmanni til mín sem ég svara þá væntanlega við fyrsta tækifæri og hefur starfsfólk mitt lagt í umtalsverða vinnu til að þau svör verði sem sönnust og ítarlegust. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ráð var gert fyrir því að sú breyting sem var gerð árið 2003 ætti ekki að leiða til þess að aukinn ójöfnuður yrði út frá búsetu manna. Það var ekki markmiðið. Í sumum tilvikum kom fram að töluverð hækkun varð í strjálbýli vegna þess að þar var um að ræða, a.m.k. þar sem hækkanir eru mestar, einstaklinga eða býli sem höfðu verið á sérkjörum sem ekki gengu eftir þessa breytingu.

Hitt liggur ljóst fyrir að auðvitað stendur vilji minn til þess að reyna að draga úr þessum mun. Spurningin er með hvaða hætti það er hægt við núverandi aðstæður. Hv. þingmaður hefur kannski góðar hugmyndir um það. Við leggjum nú þegar 950 millj. kr. beinlínis samkvæmt lögum til að greiða niður rafhitun á köldum svæðum og ekki stendur til að lækka t.d. þann kílóvattfjölda sem er hámarkið sem menn greiða niður, 40 þúsund. Það hefur stundum verið gert fyrr á árum en sú ríkisstjórn, sem hv. þingmaður var stundum að skammast mikið út í, hækkaði það aftur úr 35 þúsund í 40 þúsund kílóvött. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeirri staðreynd að ef jafna á þennan mun í gegnum ríkið mun það kosta mjög háar upphæðir. Við núverandi aðstæður þori ég ekki að lofa hv. þingmanni neinu um að mikið nýtt fé komi til þess á árinu.