136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[12:03]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Heitt vatn er partur af þeim lífsgæðum sem eru ákjósanlegust hvar sem menn búa. Það skiptir t.d. miklu máli fyrir byggðarlög sem eiga í glímu við sína eigin tilvist, vegna þess að fólk hallast til að flytja þaðan á mölina, að geta búið því svipuð lífskjör og er að finna á Reykjavíkursvæðinu. Eitt af því sem gerir innnesin að ákjósanlegum stað er sú gnótt heits vatns sem hér hefur lengi verið nýtt til að hita upp híbýli með ódýrum hætti. Þegar við skoðum verðþróun þar sjáum við að verð hefur í rauntölum farið niður árlega um 10 ára skeið.

Iðnaðarráðherra vill gera allt sem hann getur til að auka líkur á því að heitt vatn finnist svo hægt sé að nýta það á landsbyggðinni. Ég hef fengið aukið fjármagn til að ráðast í sérstakt átak við leit að heitu vatni. Sums staðar hefur það borið góðan árangur. Það voru góðar fréttir um daginn af einum stað sem hafði verið skilgreindur sem kalt svæði. Þar spýttist upp 47°C heitt vatn í töluverðum mæli.

Hv. þingmaður spyr síðan sérstaklega um Skagaströnd og lagningu hitaveitu þaðan. Það er mál sem ég gjörþekki. Ekki er það rétt hjá hv. þingmanni að Rarik sé undir mér, mitt ráðuneyti er eftirlitsaðili með Rarik. Það er formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er raunverulega með fyrirtækið undir sínu ráðuneyti. Heimamenn lögðu ríkt kapp á það við mig að 50 millj. kr. yrði aflað af fjárlögum til þessa verks. Ég fór í mikinn leiðangur vegna þessa og hann gekk misjafnlega framan af en að lokum tókst það. Iðnaðarráðuneytið hefur staðið við það, alveg eins og ráðuneytið hefur borgað upp allar skuldir vegna stofnstyrkja til hitaveitna, (Forseti hringir.) síðast 102 millj. kr. styrk til Grýtubakkahrepps.