136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[12:06]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á stöðu raforkumála. Raforkan er ein af forsendum fyrir atvinnulífi og góðri búsetu víða um land, eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom að áðan. Það skiptir því máli að bæði atvinnumál og heimili eigi aðgang að þessari auðlind okkar á jafnræðisgrundvelli. Sé þess nokkur kostur er þetta einn af grunnþáttum fyrir fjölþætt atvinnulíf og búsetu í okkar ágæta landi.

Þannig hefur þessi hugsun verið þangað til raforkulögum var því miður breytt og farið að innleiða hér markaðskerfi í raforku. (VS: EES …) Já, fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra sem stóð fyrir þessari markaðsvæðingu rafmagnsins, jafnfáránleg og hún var, ber fyrir sig EES-reglur. Þegar reglur og skynsemi stangast á finnst mér að skynsemin eigi að ráða. Það á að gera líka varðandi Evrópusambandið og EES, sem hæstv. ráðherra — (Iðnrh.: Er það þess vegna sem þið viljið ekki ganga í það?) þess vegna viljum við ekki ganga í það.

Að fara að innleiða hér lög og reglur um raforku eins og við séum á einhverjum alþjóðlegum raforkumarkaði væri fáránlegt. Því miður var innleitt hér markaðskerfi í raforkubúskapnum og gert að aðskilja orkusölu og orkudreifingu, eins og við gætum bara keypt raforku á frjálsum markaði. Því var samt lofað að þessi breyting ætti að leiða til svo mikillar hagkvæmni að raforkuverð í landinu mundi stórlækka. Þau rök voru notuð til að selja þá hugmynd að markaðsvæða raforkukerfið. Reyndin hefur orðið öll önnur. Í Bændablaðinu er dregin upp ágæt mynd þar sem hagfræðingur Bændasamtakanna, Erna Bjarnadóttir, rekur það hvernig raforkukostnaður hefur hækkað núna síðustu árin, frá 2005–2009, langt umfram vísitölu. Dreifigjald hjá Rarik hefur hækkað, ef vísitalan var 100 í janúar 2005 er hún nærri 150 í janúar 2009. Vísitala framfærslukostnaðar er þó rétt undir 140 eftir hækkun. Hækkanir hafa verið langt umfram það sem meira að segja vísitöluhækkun nam, hvað þá að komið sé til móts við þær væntingar sem gefnar voru þegar markaðsvæðing raforkukerfisins var tekin upp.

Um áramótin skullu á miklar hækkanir, bæði hjá Rarik og 1. mars hjá Orkubúi Vestfjarða. Dreifikostnaður Rariks var hækkaður að mig minnir um 15–40% frá 1. janúar sl. Það kemur að vísu misjafnt niður en kemur þó harðast niður á þeim stöðum þar sem vegalengdir eru mestar. Slík hækkun á dreifikostnaði er ekkert smáræði, sú hækkun ein gæti t.d. skipt hundruðum þúsunda á sveitabýlum. Þessi hækkun kom á sama tíma, fyrir áramót, og fyrrverandi ríkisstjórn gaf út afdráttarlaus tilmæli til sveitarfélaga og þjónustustofnana um að hækka ekki gjaldskrár sínar, heldur reyna að halda aftur af gjaldskrárhækkunum til að íþyngja ekki atvinnurekstri og heimilishaldi í landinu. Aðspurðir á fundi sögðu fulltrúar Rariks að þeir hefðu ekki borið þessa hækkun undir þáverandi ráðherra en að vísu tilkynnt til Orkuseturs, eða hvað það heitir, sem er umsagnaraðili um slíkar hækkunarbeiðnir. Þarna komu gríðarlegar hækkanir á fólk.

Nú er líka um hækkun að ræða hjá Orkubúi Vestfjarða og þá koma skýrt fram þessar fáránlegu reglur um skiptingu í dreifbýli og þéttbýli. Ég er með frétt sem var á BB, vef Vestfjarða á Ísafirði, í gær þar sem frá þessu greinir. Fyrirsögnin er Súðvíkingar greiða meira. Þar segir, með leyfi forseta:

„Súðavík er stærsta byggðarlagið á landinu sem fellur undir skilgreininguna dreifbýli við verðlagningu á raforku samkvæmt raforkulögum sem sett voru árið 2005. Til að byggðarlag geti talist þéttbýli þurfa íbúar að vera 200 eða fleiri en slíkt var ekki upp á teningnum þegar lögin tóku gildi árið 2005. Súðvíkingar þurfa því að greiða umtalsvert hærra gjald fyrir raforkuna en notendur í þéttbýli. Við setningu raforkulaga var því heitið af stjórnvöldum að niðurgreiða að fullu þann kostnaðarmun sem hlýst óhjákvæmilega af því að dreifa rafmagni um strjálbýlli svæði. Við það hefur ekki verið staðið að sögn Kristjáns Haraldssonar, orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða. „Þetta var gert með það að markmiði að hægt væri að hafa lægra gjald í þéttbýli svo íbúar þess þyrftu ekki að greiða niður kostnað sem óhjákvæmilega er mun hærri í dreifbýlinu,“ segir Kristján.

Með 13% hækkun verðskrár Orkubús Vestfjarða sem tók gildi um síðustu mánaðamót eykst munurinn enn. Stjórn OV hefur farið fram á að þessi munur verði jafnaður með auknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði og þannig verði staðið við gefin fyrirheit stjórnvalda.“

Ég vil vekja mjög rækilega athygli á þessari mismunun sem er í gangi gagnvart fólki eftir því hvort það býr í dreifbýli eða þéttbýli, eða hvort þéttbýli er undir eða yfir 200 eða 300 íbúum. Vel má vera að nauðsynlegt sé að hækka flutningskostnað og orkuverð en það á þá að ganga jafnt yfir landsmenn.

Ég hefði líka viljað spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í Rarik. Þó að Rarik heyri fjárhagslega undir hæstv. fjármálaráðherra heyrir hlutverk Rariks þó starfslega undir iðnaðarráðuneytið. Ég sakna þess að sjá ekki hvernig Rarik, Rafmagnsveitum ríkisins, sem er ágætt fyrirtæki yrði beitt markvisst til atvinnusköpunar í landinu, hvernig því yrði beitt til að styrkja dreifikerfið. Á undanförnum árum hefur höfuðáhersla verið lögð á að byggja upp dreifikerfi fyrir stóriðjuna og hluti af þeim orkukostnaði sem nú lendir á almennum notendum er til kominn vegna þess að annars vegar er verið að greiða niður orkuverð og hins vegar flutningskostnað á orku til stóriðju. Skuldir Landsnets sem fyrst og fremst hefur lagt línur fyrir stóriðjuna fara að hluta til yfir á Rarik sem verður síðan að innheimta þær í gegnum almenna notendur. Þarna eru a.m.k. um 2 milljarðar króna, veit ég, sem hvíla á Rarik vegna þessara skuldbindinga Landsnets. Á meðan hefur dreifikerfi Rariks engan veginn náð að fylgja eftir þeim kröfum sem maður gerir til dreifikerfis í sveitum.

Er ekki núna hægt að beita Rarik til þess að taka þátt í atvinnusköpuninni og koma á virkan hátt inn í það að styrkja dreifikerfið úti um land sem nú er mjög ótryggt og tryggja þannig raforku, bæði i hinum minni þéttbýlum og líka til sveita? Er ekki hægt að gera átak í þrífösun rafmagns sem hluta af hinum atvinnuskapandi aðgerðum? Úti um sveitir og úti um land eru gríðarlegir möguleikar til að efla atvinnu og jafna búsetuskilyrði ef þetta er gert. Það er mjög ósanngjarnt að íbúar í Súðavík eða öðrum slíkum byggðum eða úti um sveitir borgi í fyrsta lagi miklu hærra verð fyrir rafmagn á hverja kílóvattsstund en aðrir borga og hafi í öðru lagi miklu lélegri gæði, einfasa rafmagn, ótryggt rafmagn, ótryggt afhendingaröryggi.

Ég legg áherslu á að í þeim aðgerðum sem við erum að fara út í til að styrkja innviði íslensks samfélags og innlenda atvinnustarfsemi, til að styrkja og efla og gefa aukin atvinnutækifæri vítt og breitt um landið eigi menn að beita Rarik og orkuveitunum til þess. Þetta eru forgangsatriði og ég tel að við getum nýtt styrk Rariks. Þó að Rarik sé með skuldir er það líka mjög eignasterkt fyrirtæki og hefur gríðarlegt hlutverk úti um byggðir landsins.

Ég vildi koma þessu að, frú forseti: Í fyrsta lagi var jöfnuði lofað í raforkuverði um landið. Við það hefur ekki verið staðið á undanförnum árum og voru þó nægir peningar í ríkissjóði til að standa við loforðin. Í öðru lagi tel ég að við eigum að nýta styrk Rariks til að efla atvinnulíf, styrkja línulagnir, efna til nýrra hitaveitna, eins og hér er lagt til, og til að styrkja atvinnulíf og búsetu í landinu. Þetta hefur verið á annarri vegferð, stöðugar hækkanir hafa verið á raforkuverði og hlutfallslega meiri til dreifbýlisins. Við eigum að vera ein þjóð í einu landi, líka hvað raforkuverð varðar.