136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[12:33]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þeir áhugasömu þingmenn sem hér eru í salnum, og hafa mikinn áhuga á málefnum raforku á Íslandi, minnast þess örugglega með nokkurri gleði þegar við saman samþykktum hér, þegar komið var fram í júní árið 2008, lög um breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Meginefni þeirra laga var að setja reglur um opinbert eignarhald fyrirtækja sem stunda sérleyfisstarfsemi og kannski ekki síst að leggja algjört bann við varanlegu framsali á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu opinberra aðila. Það þýddi það í reynd, frú forseti, að með því var tryggt að þær endurnýjanlegu orkulindir sem nú eru í opinberri eigu verða það áfram að íslenskum lögum.

Í þeim lögum var sömuleiðis kveðið á um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Í kjölfar þess hafa bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur unnið að undirbúningi þess að aðskilja starfsemina í samræmi við ákvæði laganna. Ég nefni það hér að 1. desember 2008 var samþykkt á hluthafafundi Hitaveitu Suðurnesja hf. að skipta fyrirtækinu í HS Orku hf., sem ætti þá að annast virkjanir og raforkusölu, þ.e. framleiðsluþáttinn, og hins vegar HS Veitur hf., sem taka á yfir veitustarfsemina. Formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf., í krafti laganna sem ég reifaði hér í upphafi máls míns, átti sér stað 1. janúar sl.

Í síðasta mánuði fór Orkuveita Reykjavíkur þess hins vegar á leit við iðnaðarráðherra að hann beitti sér fyrir því að gildistöku þeirra ákvæða raforkulaga sem lúta að aðskilnaði samkeppnis- og sérleyfisþátta yrði frestað frá 1. júlí nk. til 1. janúar 2010. Orkuveitan gaf upp sem ástæðu fyrir ósk sinni að orðið hefðu breytingar á fjárhagslegu umhverfi orkufyrirtækja eins og annarra fyrirtækja í landinu. Það var mat forsvarsmanna fyrirtækisins að uppskipting á þessum tíma gæti hugsanlega tafið fyrir gerð lánasamninga. Hins vegar standa vonir til að fyrirtækið ljúki fjármögnun og gerð nýrra lánasamninga á síðari hluta þessa árs.

Ég taldi sjálfsagt að liðka til fyrir fyrirtækinu á þeim erfiðu tímum sem við Íslendingar búum nú við og reyna að rétta þeim hjálpandi hönd með því að greiða fyrir ósk þeirra. Með hliðsjón af því og þeim aðstæðum sem sannarlega hafa komið upp í íslensku fjármálalífi legg ég til, í þessu litla frumvarpi sem er ekki nema þrjár efnislínur, að ákvæði 14. gr. raforkulaga komi til framkvæmda þann 1. janúar 2010. Önnur ákvæði sem varða opinbert eignarhald og bann við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum hafa hins vegar þegar öðlast gildi.

Ég tel ekki neina ástæðu, frú forseti, til að reifa þessi mál frekar og legg því til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.