136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[14:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Áður en þessar ánægjulegu atkvæðagreiðslur fóru fram vorum við að ræða frumvarp til laga um listamannalaun sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt hér fram og í raun kannski tveir menntamálaráðherrar, sá sem nú situr Katrín Jakobsdóttir og sá sem síðast var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Í heild sinni get ég ekki annað en stutt þetta frumvarp og tekið undir flestöll ákvæði þess en verð þó að lýsa því strax yfir að mér þykir helst til skammt gengið. Þetta frumvarp hefði verið fagnaðarefni fyrir ári og jafnvel hálfu ári en nú þykir mér það ekki mæta nægilega þeim veruleika sem við okkur blasir í landinu og kemur við listastarf og menningar- og kjör þess fólks sem þar á hlut að máli eins og annarra í landinu og jafnvel enn grimmara ef ekkert er að gert. Fyrir ári eða hálfu, segi ég, fyrst og fremst vegna þess að heildarstarfslaunin hafa haldist óbreytt í tólf eða þrettán ár, alveg frá 1996, hafa numið hundrað árslaunum. Það er tími til kominn að breyta því og í raun væri æskilegra ef hægt væri að hafa ekki fasta tölu í lögum sem alltaf þarf að breyta heldur einhverja tölu sem hægt er að sveigja til eftir atvikum og fjölgun meðal þjóðarinnar og jafnvel atvinnuaðstæðum.

Það má ýmsar tölur telja til á milli 1996 eða 1997 og til ársins 2009. Einfaldast er kannski að gera það sem ég gerði, þ.e. að athuga mannfjöldann. Mannfjöldinn árið 1996 var um 268.000 í byrjun árs og mannfjöldinn í byrjun árs 2009 319.000. Sú fjölgun ein saman nemur um 20%. Þannig að 120 árslaun árið 2009 væru eðlileg miðað við árið 1996 og þá voru aðeins 13 umfram það.

Ég held satt að segja að viðbrögð okkar við kreppunni sem yfir stendur í þessum geira ætti að vera mun rausnarlegri og mun djarfari. Ég hef sjálfur nýverið skrifað um það grein og lagt þar til að starfslaunum á ári verði fjölgað, verði tvöfölduð. Þar er svona eitthvað af því tagi sem ég tel að þörf sé á, að við förum úr 100 í 200. Eitthvað af því mætti hugsanlega gera til bráðabirgða þannig að það væri hægt að taka það aftur síðar þótt best væri auðvitað að halda því. Vegna þess að þar er ekki eingöngu um það að ræða að brugðist sé við því að listir og menning, að sköpunargreinarnar í atvinnulífinu skipta nú meira máli en áður og eiga mikilvægt erindi við framtíðina heldur líka væru það viðbrögð við þeirri kreppu sem nú stendur.

Það getur ósköp einfaldlega verið val milli þess hvort við viljum að fólk gangi um atvinnulaust eða hvort menn vinni við listir og menningu. Það er þannig að þeir sem vinna við listir og menningu og sköpun fyrst og fremst og eru ekki á starfslaunum við það eru því samhliða í einhvers konar hlutastarfi, þeir eru í öðrum störfum sem mundu þá losna. Ef við förum gróft fram hjá þá fengi það fólk starfslaun og aðrir gætu sinnt þeim störfum þannig að Einbjörn sem togar í Tvíbjörn sem togar í Þríbjörn eða hvort það var nú öfugt, segir okkur að þetta sé hagkvæm aðgerð bæði þegar um atvinnustöðurnar er að ræða og líka til þess að auka hlut sköpunar, lista og menningar í atvinnulífi okkar og mannlífi yfir höfuð.

Ég legg til að menntamálanefnd athugi þetta gaumgæfilega og beini því til og athugi það með ríkisstjórninni og samtökum listamanna hvort hægt sé að ganga lengra í þessa átt.

Frumvarpið virðist ekki vera, forseti, hugsað mjög í þessu skyni og það sést á því að þessi fjölgun, um 33,33 árslaun, á að gerast á þremur árum. Hún á að gerast árið 2010, 2011 og vera að fullu lokið árið 2012. Hér er því að litlu leyti um að ræða viðbrögð við því ástandi sem upp er komið. Í þessum orðum mínum felst engin ásökun heldur hvatning og brýning til okkar í menntamálanefnd og til ráðherrans og stjórnvalda um að gera betur.

Ég vil svo bæta því við að sú skipan kann að vera skynsamleg að hætta að miða við laun tiltekinnar starfsstéttar og beinlínis nefna launatöluna í frumvarpinu. Ég hef þó miklar efasemdir við að það sé gert. Það þýðir að það þarf að breyta launaupphæðinni með lögum væntanlega á hverju ári sem getur verið nokkuð tafsamt og ég held að það sé betra að miða við laun tiltekinnar starfsstéttar sem væntanlega fylgja þá klárlega hækkunum í samfélaginu. Ég er hins vegar ekki viss um að sú starfsstétt sem um hefur verið rætt sé sú rétta í þessu tilviki því þegar lögin voru sett voru margir í þeirri starfsstétt og hún var svona, hvað eigum við að segja, virk og fjölmenn. En nú hefur það gerst að í lektorsstöðu við háskóla eru menn yfirleitt í tiltölulega skamman tíma og fá síðan framgang upp í dósent eða annað það kennaraheiti sem meiri laun fylgja.

Launin sem hér eru tiltekin og ég geri ráð fyrir, án þess að hafa athugað það og biðst afsökunar á því, að þau nemi nokkurn veginn þeim sem áður hafa verið, eru ekki há, u.þ.b. 266 þús. kr. Það þykir auðvitað gott í sumum stéttum, eins og gengur. En þar verðum við að gæta að því að hér er í raun og veru um að ræða verktakalaun eins og kallað er á vinnumarkaði. Af þessari tölu ef þetta eru einu tekjur viðkomandi listamanns verður hann að draga lífeyrissjóðsgreiðslur sínar. Hann verður að reikna sér orlof inn í þessa tölu og hann verður að borga af þessu starfskostnað þannig að það sem eftir stendur til viðurværis er ekki mikið. Ýmsir listamenn væru hreinlega að lækka í launum frá kannski slökum meðallaunum í samfélaginu með því að taka þessi starfslaun og gera það nú þegar.

Þar kemur vissulega á móti sú orðalagsbreyting að í stað þess að áskilja það að starfslaunaþegi, þannig að maður noti bírókratísku, gegni ekki fullu starfi þá er nú kveðið á um að hann skuli ekki gegna föstu starfi. Þetta þýðir, forseti, í raun að þeim sem þiggja starfslaunin er leyft að vera í hlutastarfi. Það er ekki að öllu leyti slæmt. Það þarf að vera svigrúm í þessu og sveigjanleiki. Það er ekki hægt að banna t.d. rithöfundi að þiggja tekjur fyrir bækur sem hann hefur áður skrifað eða málurum að selja málverk sem hann hefur áður málað þannig að einföld dæmi séu tekin. En það kann að vera varhugavert skref að gera nánast ráð fyrir því, með því að hafa upphæðina svona lága, að mjög margir listamenn fái starfslaunin í raun og veru fyrir hlutastarf.

Þetta þurfum við að laga. Ég veit að hér koma auðvitað fjárhagslegar mótbárur og í þessum geira skipta þær auðvitað máli. En ég held að á þessum tíma verðum við að reyna að lyfta okkur yfir rúsínutalningar og smámuni. (Iðnrh.: Baunatalningar köllum við það.) Baunatalningar, segir hæstv. iðnaðarráðherra, sem er mér orðsnjallari og hagari á margan hátt. Rúsínutalningarnar hef ég nú reyndar af frásögn barnabarns skólastjóra í Svarfaðardal sem viðhafði mjög hin fornu gildi í starfi sínu, einkum gildi nægjusemi, að maður segi ekki beinlínis nísku og kom með fimm eða sex rúsínur til barna sinna sem voru held ég fimm eða sex eða sjö að tölu og bað þau blessuð að skipta rúsínunum á milli sín. Ég held að við þurfum að lyfta okkur yfir það og taka betur á en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Það segi ég algjörlega að flytjendum þess eða flutningsmanni þess og upphugsuðum ólöstuðum.

Í þriðja lagi er kannski að drepa á, þetta verður auðvitað rætt í nefndinni og óþarfi að setja hér á langar ræður, þá breytingu að skipta listasjóðnum í tvo sjóði, annars vegar fyrir sviðslistafólk og hins vegar fyrir tónlistarflytjendur og ég held að enginn geti á móti því mælt. Hins vegar er þá verið að stíga skref áfram í skiptingu þessara launa sem einu sinni voru nánast í upphafi sínu í einum flokki og ég er ekki alveg viss um að það sé endilega heppilegt. Kannski ætti að taka upp aðra skipan og sveigjanlegri en lögfestingu á tölu þeirra sem starfslaun fá af almannafé í hverri grein fyrir sig. Hafa þetta frekar þannig að það sé kannski einhvers konar leiðbeining í lögunum, einhvers konar svigrúm en skiptingin fari eftir atvikum og sé í höndum stjórnar sem listamenn sjálfir hafa mikil áhrif á og væri þá hægt að hnika til eftir því sem á líður.

Ég geri mér vissulega grein fyrir því að það gæti kostað töluverðar orrustur og styrjaldir, landamæradeilur og hróp og köll í hópi listamanna sem í veljast einstaklingar sem ekki hafa þolinmæði eða lítillæti að helstu skapgerðarþáttum. En það er hins vegar ókostur að ríkið sé að skipta sér af því, þingið og stjórnvöld, hvað margir listamenn af hverju tagi eigi að komast lífs af eða njóta viðurværis af almannafé á hverjum tíma.

Læt ég svo þessu lokið og hlakka til þess hlutskiptis ef það verður mitt, að fjalla um þetta í hinni háu menntamálanefnd.