136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[14:24]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni athyglisverð löggjöf. Breytingar á lögum sem fyrst tóku gildi 1967 og var síðan breytt, bæði 1991 og 1996 og hafa lagt grunninn að listamannalaunum sem ég tel að sé mjög mikilvægt að við skjótum traustum stoðum undir.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp til þess að tjá mig um þetta frumvarp er annars vegar að ég fagna því alveg sérstaklega sem kemur fram í 2. gr. frumvarpsins þar sem bætt er við nýjum launasjóði fyrir hönnuði, launasjóði hönnuða.

Íslendingar hafa stöðugt aukið hlutdeild sína í hönnunarstarfsemi og við eigum mjög mikið og gott fagfólk á sviði hönnunar og hróður íslenskra hönnuða hefur farið víða sem betur fer. Þess vegna fagna ég því að hönnuðir skuli eiga aðild að þessum sjóðum og er það vel. Með sama hætti er það fagnaðarefni að tónlistarflytjendur og sviðslistafólk eigi kost á aðild með sama hætti og að launasjóður þeirra vegna sé settur á laggirnar.

Við vitum það að í jafnfámennu samfélagi sem íslenska þjóðin er skiptir miklu máli að standa vel við bakið á þeim sem sinna listinni hvaða nafni sem hún nefnist. Það á að vera takmark okkar og vera mikill metnaður sem tengist því.

Þá kem ég að hinu atriðinu sem fellur kannski ekki alveg að þeirri hugsun að við sýnum metnað gagnvart þessu. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið, koma fram athugasemdir um það sem hér er væntanlega verið að lögfesta og ég vænti þess að nefndin fari vel yfir það, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Vegna mikils halla á ríkissjóði mun því þurfa að fjármagna útgjöldin með lántökum.“

Þetta hlýtur að valda nokkrum áhyggjum að ekki skuli vera gert ráð fyrir því að tekjugrundvöllur fyrir þessum útgjöldum sé tryggður. Auðvitað vitum við að það er af mörgu að taka núna þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs og þegar lánsfjáröflun er annars vegar og við gerum ráð fyrir því að reka ríkissjóð með verulegum halla á næstunni vegna þeirra aðstæðna sem hér eru uppi. En engu að síður er ekki verið að tjalda til einnar nætur. Hér er verið að setja löggjöf sem á að tryggja listafólki og núna hönnuðum aðstöðu til þess að sinna list sinni og við ætlum að byggja það á lántökum.

Ég tel að við þurfum að skoða þetta betur hér í þinginu og kanna allar leiðir til þess sem kunna að vera færar svo tryggja megi eðlilega og trausta tekjuöflun fyrir þessa sjóði.

Þetta er nú það sem ég vildi að kæmi fram við þessa umræðu, hæstv. forseti. Ég vænti þess að hv. nefnd sem fær málið til meðferðar skoði þetta sérstaklega hvernig við getum með öðru en lántökum tryggt þennan stuðning.