136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

411. mál
[14:44]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er til meðferðar frumvarp til laga um stofnun hlutafélags, eins og segir í yfirskrift frumvarpsins, til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Ástæða er til að undirstrika við þessa umræðu, og ég vil að það komi fram hér, að þarna skiptir mjög miklu máli hvernig á verður haldið þegar þetta félag, sem lögin gera ráð fyrir, verður sett á laggirnar og hefur sína starfsemi.

Það fer auðvitað ekki á milli mála að allar þær endurreisnaraðgerðir sem eru í gangi eftir bankahrunið þarf að vanda og mér sýnist að hér sé á ferðinni frumvarp sem er í rauninni framhald af þeirri vinnu sem fram fór á vettvangi fyrrverandi ríkisstjórnar og á grundvelli þeirrar ráðgjafar sem undirbúin var af hálfu fyrrverandi forsætisráðherra. Ég geri ráð fyrir því að sú nefnd sem fær málið til meðferðar fari vandlega og rækilega ofan í það vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að þessi löggjöf sé, eins og ég sagði fyrr, reist á traustum grunni og að leitað verði umsagna aðila vinnumarkaðarins. Mig minnir að eitthvað hafi heyrst frá Samtökum atvinnulífsins um þá hugmyndafræði sem býr að baki þessari löggjöf og þess vegna mikilvægt að hv. nefnd sem vinnur að málinu fái traustar umsagnir frá samtökum á vinnumarkaði.

Ekki er ástæða til þess að hafa fleiri orð um þetta. Það er alveg ljóst að þetta félag getur þurft að taka til hendinni mjög hratt og það skiptir auðvitað mjög miklu máli að ríkið komi að sem allra fyrst, og helst löngu áður en þau fimm ár eru liðin sem gert er ráð fyrir að löggjöfin geti verið í gildi, þannig að hægt verði að selja þær eignir sem kunna að verða teknar inn í þetta félag og þeim komið í rekstur sem allra fyrst. Að öðru leyti hef ég engar athugasemdir við málið.