136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

13. mál
[15:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mál en vil samt koma hér upp og lýsa því að ég tel að þetta sé mjög mikið framfaraskref sem við stígum hér fyrir íslensk börn. Það er alveg ljóst að þessi samningur felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi fyrir börn óháð réttindum fullorðinna. Auk borgaralegra réttinda tryggir hann börnum félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi. Þetta er grundvallarsáttmáli, eins og kom fram í máli framsögumanns, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, og verður unnt að beita samningnum fyrir rétti þegar búið er að ganga frá löggildingu hans.

Mjög góð samstaða náðist í allsherjarnefnd um þetta mál. Að vísu eru sjálfstæðismenn með fyrirvara á málið. En almennt segi ég fyrir hönd okkar framsóknarmanna að við erum mjög ánægð með að þetta skref skuli vera tekið og teljum að þetta sé mikið framfaramál fyrir börn á Íslandi.