136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

leikskólar og grunnskólar.

390. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leik- og grunnskóla. Frumvarp þetta er flutt af menntamálanefnd og er ástæða þess sú að borist hafa upplýsingar frá umboðsmanni Alþingis um að hugsanlega gæti skapast réttaróvissa milli þessara laga um leik- og grunnskóla annars vegar og barnalaga hins vegar hvað varðar upplýsingar forsjárlausra foreldra um börn sín. Því er lagt til að til samræmis við barnalög verði þær breytingar gerðar annars vegar á lögum um leikskóla og hins vegar á lögum um grunnskóla að bætt verði inn í lögin um leikskóla við 1. mgr. 9. gr. nýjum málslið sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Um rétt foreldris sem ekki fer með forsjá barns til upplýsinga um barn sitt samkvæmt þessum lögum fer samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003.“

Hið sama gildir síðan um grunnskólalög, þar bætist samhljóða málsliður við 2. mgr. 18. gr. Og gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.

Eins og kom fram hjá mér áðan er tilefni þessa frumvarps ábendingar sem fram hafa komið um mögulegt misræmi milli ákvæða 18. og 27. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, og 9. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla, annars vegar og ákvæða 2. mgr. 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003, hins vegar. Í tilvitnuðum ákvæðum laga um grunnskóla og laga um leikskóla er fjallað um aðgang foreldra að upplýsingum um börn sín, þar á meðal upplýsingum um námsmat. Foreldrar teljast samkvæmt lögunum þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Í tilvitnuðu ákvæði barnalaga er á hinn bóginn fjallað um rétt forsjárlausra foreldra til upplýsinga um börn sín frá m.a. leikskólum og grunnskólum. Ákvæði 52. gr. barnalaga hafa verið skýrð svo að með upplýsingum sé átt við munnlegar upplýsingar en ekki bréfleg gögn eða ljósrit af þeim. Í fyrirspurnarbréfi umboðsmanns Alþingis til menntamálaráðuneytisins 3. febrúar sl. eru framangreind ákvæði rakin og bent á að þau kunni að vera efnislega ósamþýðanleg og að eftir setningu laga um grunnskóla og laga um leikskóla kunni að ríkja ákveðin réttaróvissa í ljósi samspils þeirra ákvæða við 2. mgr. 52. gr. barnalaga hvað varði inntak og afmörkun réttar forsjárlausra foreldra til upplýsinga um skólagöngu barna sinna. Í þeim tilgangi að bregðast við framansögðu er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að um rétt forsjárlausra foreldra til upplýsinga um börn sín samkvæmt lögum um leikskóla og grunnskóla fari skv. 52. gr. barnalaga. Breytingin sem lögð er til í frumvarpi þessu er í samræmi við þann vilja menntamálanefndar sem fram kom við afgreiðslu á lögunum um leikskóla og grunnskóla sem samþykkt voru á 135. löggjafarþingi.

Herra forseti. Ég sagði að þetta frumvarp væri fram borið af menntamálanefnd. Það er hins vegar rétt að taka það fram að hér er að hluta til um afar viðkvæm mál að ræða. Það er ekki á verksviði menntamálanefndar að gera breytingar varðandi upplýsingar til forsjárlausra foreldra samkvæmt barnalögum, það er stærra mál. Hins vegar er afar nauðsynlegt að það sé fullt samræmi milli laga varðandi slíkar upplýsingar. Þetta frumvarp er hér fram borið til að taka af allan vafa um það að barnalögin gildi líka varðandi upplýsingar í leik- og grunnskólum þannig að engin réttaróvissa á að skapast, enda var það ekki ætlunin með þeim lögum sem hér voru sett árið 2007.