136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

leikskólar og grunnskólar.

390. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er réttur skilningur hjá hv. þingmanni að þannig eru þessi mál samkvæmt dómi varðandi túlkun á barnalögum. Þetta hefur vissulega verið rætt og er augljóst að er mál sem þarf að skoða sérstaklega. Það er væntanlega kunnugt öllum hv. þingmönnum að fyrirspurnir um þetta hafa komið í tölvupósti til líklega allra hv. þingmanna og í tilefni af því hef ég auðvitað farið aftur yfir málið og leitað mér upplýsinga um þetta hjá lögfræðingum. Það er augljóst að ef breyta á þessu verður það að gerast í barnalögum. Það sem hér er verið að gera er að að tryggja samræmi milli laga. Það eru barnalög sem ákvarða í raun hvernig með þessi mál er farið. Það er flókið og viðkvæmt og það þarf að vanda alla þessa lagasmíð. Niðurstaðan er hins vegar sú að ef þessi breyting yrði ekki gerð sem hér er lögð til væri sú staða hugsanlega uppi að forsjárlausir foreldrar hefðu ekki aðgang að neinum upplýsingum um börn sín í leik- og grunnskólum. Og ég tel að sjálfsögðu ekki vilja löggjafans að það sé ósamræmi á milli þessara laga og eins og ég sagði áðan er hér fyrst og fremst lagt til að hafa fullt samræmi á milli laganna. Ef menn vilja breyta einhverju varðandi upplýsingar til forsjárlausra foreldra þarf það að gerast í gegnum barnalög.