136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

leikskólar og grunnskólar.

390. mál
[15:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur verið upplýst að endurskoðun barnalaga stendur yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Ég ætla rétt að leyfa mér að vona að í þeirri endurskoðun verði tekið á þessu ákvæði sem ég geri hér mjög alvarlegar athugasemdir við. Ég leyfi mér að fullyrða að réttur forsjárlausra foreldra til þess að fá upplýsingar um börn sín er ekki best tryggður í munnlegri geymd. Með fullri virðingu fyrir starfsmönnum leikskóla og grunnskóla tel ég að upplýsingarnar sem hér um ræðir geti varðað til að mynda tilvísun til sálfræðings, geti varðað greiningu, afleiðingar slysa eða annarra áfalla og ég leyfi mér að fullyrða að munnleg skilaboð um slíkt séu ekki réttur farvegur til að upplýsa forsjárlaust foreldri á sama tíma og bréflegum gögnum er leynt fyrir því. Ég skora á þingheim og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að horfa vel til þessa ákvæðis við yfirstandandi endurskoðun barnalaga.