136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

146. mál
[15:34]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Það er mér sérstök ánægja að fá að mæla fyrir frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

Ég flyt þetta frumvarp á þskj. 163 ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Ellerti B. Schram, Guðjóni A. Kristjánssyni, Höskuldi Þórhallssyni, Kristni H. Gunnarssyni, Katrínu Jakobsdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Álfheiði Ingadóttur og Helga Hjörvar.

Eins og hér kemur fram standa flutningsmenn úr öllum stjórnmálaflokkum nema Sjálfstæðisflokki að þessu frumvarpi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem frumvarp þessarar gerðar er flutt á Alþingi. Líklega er þetta í níunda sinn sem frumvarp þetta er flutt á Alþingi en hefur aldrei svo langt komist til umfjöllunar í nefnd eftir því sem ég best veit. Þess vegna segi ég það í upphafi að mér er sérstök ánægja að fá að mæla fyrir þessu frumvarpi því það veit þá að minnsta kosti á það að málið kemur til umfjöllunar í nefnd hvað svo sem líður afdrifum þess á þessu löggjafarþingi.

Frumvarp sem hér er lagt fram gerir ráð fyrir því að Ísland verði friðlýst svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð samkvæmt frumvarpinu á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.

Markmið laga þessara er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, sem er að sjálfsögðu mikilvægt, draga úr hættunni á kjarnorkuóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Í frumvarpinu er sömuleiðis skilgreint hugtakið kjarnorkuvopn eins og það er notað í frumvarpinu, en það eru hvers kyns vopn eða sprengjur þar sem kjarnorka er leyst úr læðingi við notkun hvort sem það er samsett eða ósamsett að nokkru eða öllu leyti, en tekur ekki til flutningstækja eða útbúnaðar sem koma á sprengjum eða vopninu í skotmark ef tækið eða búnaðinn má skilja frá sprengjunni eða vopninu.

Þörfin fyrir að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum hefur því miður fremur aukist en hitt vegna atburða á alþjóðavettvangi. Má þar nefna áhuga á þróun kjarnorkuvopna í Íran og Norður-Kóreu og þá staðreynd að kjarnorkuveldin hunsa algerlega þau ákvæði samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT-samningsins svonefnda, sem skylda þau til kjarnorkuafvopnunar. En um leið hefur brotthvarf bandaríska hersins og lokun herstöðvarinnar gert það að verkum að auðveldara ætti að vera að friðlýsa landið fyrir kjarnorkuvopnum. Það er von flutningsmanna að Alþingi geti nú sameinast um að nýta þetta tækifæri og lögbinda þann yfirlýsta vilja stjórnvalda að Ísland eigi engan þátt í þróun, geymslu eða flutningi kjarnorkuvopna og stuðli þannig að friðvænlegri heimi.

Yfirgnæfandi meiri hluti sveitarfélaga hér á landi hefur nú lýst því yfir að landsvæði þeirra skuli vera friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Af 79 sveitarfélögum hafa 74 verið friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum, eða 94%, og aðeins tæplega 17.000 manns búa utan friðlýsingar, sem þýðir að 95% Íslendinga eru í friðlýstum sveitarfélögum. Ætla má að þau sveitarfélög sem eftir standa, Reykjanesbær, Vogar, Sandgerði, Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur, hafi enn minni ástæðu til að friðlýsa ekki landsvæði sín nú þegar bandaríski herinn er farinn af landi brott.

Þó er rétt að minna á að yfirlýsingar á sveitarstjórnarstigi hafa auðvitað ekkert lagagildi og almennt veikari stöðu en kjarnorkufriðlýsing landsins alls, lofthelginnar og efnahagslögsögunnar sem með frumvarpinu yrði bundin í lög. En samþykktir þessara sveitarfélaga má líta á sem afgerandi yfirlýsingu frá sveitarfélögum landsins um að friðlýsa beri landið allt og styrkja þannig ákvarðanir sveitarfélaganna. Eftir brottför hersins ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að þessi fyrirliggjandi vilji yfirgnæfandi meiri hluta sveitarstjórna verði lögfestur og gildi fyrir landið allt. Því fylgdi svo einnig að afla alþjóðlegrar viðurkenningar annarra ríkja og alþjóðasamtaka, ekki síst kjarnorkuveldanna sjálfra, á því að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust svæði.

Nýjustu fréttir af friðlýsingu sveitarfélaga eru þær að Reykjanesbær telur slíkt ekki vera á sínu forræði, en í bókun bæjarráðs Reykjanesbæjar, 10. janúar 2008 segir meðal annars, með leyfi forseta:

„… þar sem innan bæjarmarkanna er m.a. flugverndarsvæði sem er á forræði utanríkisráðuneytisins.“

Reykjanesbær, sem er langstærsta sveitarfélagið af þeim fimm sem ekki eru þegar friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum, telur með öðrum orðum að utanríkisráðherra og ríkisstjórn verði að skera úr um friðlýsingu sveitarfélagsins. Þetta eykur enn á mikilvægi þess að Alþingi taki málið fyrir eins og lagt er til í þessu frumvarpi.

Þróun mála í friðlýsingu annarra landa hefur líka verið friðelskandi fólki mjög í hag undanfarin ár. Í reynd þarf að fara norður fyrir miðbaug til að finna land sem ekki hefur skrifað undir samning um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Mið- og Suður-Ameríka, Suðaustur-Asía, Eyjaálfa og eyjarnar í Suður- Kyrrahafi og Suðurskautslandið eru allt svæði sem hafa verið friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Árið 1996 skrifuðu Afríkuríkin öll undir samning um friðlýsingu álfunnar og 20 ríki álfunnar hafa staðfest samninginn þótt enn vanti átta staðfestingar upp á að hann taki gildi. Svipað er upp á teningnum í Mið-Asíu þar sem þau ánægjulegu tíðindi áttu sér stað fyrir fáum árum að fimm lönd skrifuðu undir slíkan samning og tvö þeirra, Kirgistan og Úsbekistan, hafa þegar staðfest samninginn. Þá hafa Mongólar tekið það upp á sitt einsdæmi að lýsa yfir friðlýsingu landsins fyrir kjarnorkuvopnum við talsverðan fögnuð annarra ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur nú tækifæri til að fylgja til dæmis þessu ánægjulega fordæmi Mongólíu á alþjóðavettvangi. Slík friðlýsing gæti þar að auki verið fyrsta skrefið í friðlýsingu Norðurlanda, sem lengi hefur verið á dagskrá friðarsinna, en ekki hlotið brautargengi enn sem komið er.

Mig langar, virðulegur forseti, að vísa og vitna meðal annars í dóm Alþjóðadómstólsins í Haag sem fjallar um beitingu kjarnorkuvopna og ógnun þess. Alþjóðadómstóllinn í Haag komst að þeirri niðurstöðu að ekki aðeins bryti notkun kjarnorkuvopna gegn alþjóðalögum heldur líka það að ógna eða hóta því að beita þeim gegn öðru ríki. Rökstuðningur dómstólsins er sá að til þess að vopn geti talist lögmætt verði beiting þess að geta beinst að hernaðarlegum skotmörkum eingöngu en ekki óbreyttum borgurum. Eðli kjarnorkuvopna sé hins vegar þannig að beiting þeirra muni ávallt bitna á óbreyttum borgurum, auk þess sem þau hafi neikvæð umhverfisáhrif sem leiðir til enn meiri skaða óbreyttra borgara. Sams konar rök eru færð á grundvelli þess að ávallt beri að virða hlutlaus svæði, en kjarnorkuvopn séu þess eðlis að aldrei sé hægt að útiloka að beiting þeirra bitni líka á íbúum og umhverfi hlutlausra svæða. Að lokum telur Alþjóðadómstóllinn að þjóðum heims sé skylt að semja um algjöra kjarnorkuafvopnun undir ströngu alþjóðlegu eftirliti.

Að sjálfsögðu má spyrja sig þeirrar spurningar hvaða gildi friðlýsing af því tagi sem hér er lagt til hafi og hvaða erindi hún eigi í samfélagsumræðuna í dag. Ég tel að þó að við Íslendingar séum að glíma við margs konar vanda í okkar efnahagsmálum og samfélagsmálum sem rekja má til bankahrunsins þá breyti það ekki því að við þurfum líka að sinna margvíslegum öðrum málefnum og utanríkismál, alþjóðamál, samskipti okkar á þeim vettvangi skipta líka máli og eiga að sjálfsögðu skilið að fá umfjöllun og umræðu.

Skemmst er að minnast atburðar sunnar í Atlantshafinu þar sem tveir kjarnorkuknúnir kafbátar frá Bretlandi og Frakklandi rákust saman. Íslensk yfirvöld fengu ekki upplýsingar um þann atburð fyrr en mörgum vikum síðar og hefur utanríkisráðuneytið komið á framfæri mótmælum við sendiherra þessara ríkja hér á landi vegna þessa. Þetta minnir okkur svo sannarlega á hvað við erum háð hreinu umhverfi í hafinu í kringum okkur. Þjóð sem byggir allt sitt á auðlindum sjávar á gríðarlega mikið undir því að ekki verði nein slys sem setja þær auðlindir og nýtingu þeirra í mikla hættu. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef kjarnorkuslys yrði í hafsvæðunum í kringum Ísland hvað þetta varðar. Þess vegna er þetta mikilvægt mál fyrir land og þjóð jafnvel á þeim tímum sem við búum við núna og kannski ekki hvað síst á tímum eins og við lifum um þessar mundir þegar við eigum vissulega undir högg að sækja í efnahagslegu tilliti og megum ekki við miklum áföllum í viðbót. Þess vegna held ég að fullt tilefni sé að taka þessi mál til umræðu á vettvangi Alþingis og í samfélaginu.

Ég vænti þess að að lokinni þessari umræðu verði þessu frumvarpi vísað til 2. umræðu og hv. utanríkismálanefndar til umfjöllunar. Miðað við þann breiða hóp sem stendur að flutningi þessa frumvarps — það eru fulltrúar úr öllum flokkum nema einum — þá vonast ég til að málið fái góða og málefnalega umfjöllun og góðar viðtökur á vettvangi nefndarinnar og að við getum unnið að því í sameiningu áfram að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og koma á banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.