136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

157. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Þeir sem flytja þetta frumvarp eru þingmenn úr Framsóknarflokknum, Samfylkingunni og Vinstri grænum. Þetta er stutt frumvarp, einungis tvær greinar. Í þeirri fyrri er lagt til að 2. og 3. málsliður 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 falli brott og í 2. gr. er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Málið er reifað í greinargerðinni en í stórum dráttum má segja að í frumvarpinu sé lagt til að fella brott undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum. Eftir stendur þá fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Virðulegi forseti. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 135. löggjafarþingi. Það hlaut ekki afgreiðslu þá þannig að þetta mál er góðkunningi okkar hér á þingi og hefur áður farið í gegnum umræðu og til nefndar. Þá var málið sent til nokkurs fjölda umsagnaraðila og níu umsagnir bárust. Fimm umsagnaraðilar lýstu yfir stuðningi við efni frumvarpsins, þ.e. Alþjóðahús, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennaathvarfið og Rauði kross Íslands. Félag íslenskra stórkaupmanna, Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið tóku ekki afstöðu og Viðskiptaráð gerði ekki athugasemdir. Þannig að þeir fimm umsagnaraðilar sem tóku afstöðu og tjáðu sig lýstu allir yfir stuðningi við efni frumvarpsins.

Á sínum tíma fór fram heildarendurskoðun á lögum nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði, og þá var gert ráð fyrir breyttri skilgreiningu veitingastaða. Frumvarpið varð síðan að lögum árið 2007 og þá var felldur niður flokkurinn „næturklúbbar“ sem var gert ráð fyrir samkvæmt eldri lögum að legðu aðaláherslu á „áfengisveitingar og sýningu á nektardansi í atvinnuskyni“. Þannig að það var fellt niður en í 4. gr. núgildandi laga er flokkur sem heitir „umfangsmiklir áfengisveitingastaðir“ og þá eru nokkrir veitingastaðir settir í einn og sama flokkinn. Á slíkum stöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru, með þeirri undantekningu þó að ef jákvæðar umsagnir fást frá umsagnaraðilum, skv. 10. gr., geti leyfisveitandi heimilað nektardans í rekstrarleyfi ef þess er óskað. Þannig að þar er undanþáguákvæði sem menn hafa deilt um hvernig beri að túlka.

Þegar þetta undanþáguákvæði var til umræðu hér á sínum tíma var upplýst að fulltrúar sveitarfélaganna, sem komu fyrir samgöngunefnd, hefðu viljað fá staðfestan þann skilning sinn að nóg væri að einn umsagnaraðili legðist gegn því að nektardans yrði heimilaður í rekstrarleyfi veitingastaðar til að synja mætti um leyfið. Sá skilningur er eðlilegur enda um undanþágu frá meginreglu að ræða og því réttast að skýra hana þröngt. Frá þessum tíma hefur ríkt nokkur óvissa um rekstrarleyfi þriggja veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu, eins í Kópavogi og tveggja í Reykjavík. En þeir staðir höfðu óskað eftir heimild til að bjóða upp á nektardans í endurnýjuðum rekstrarleyfum sínum.

Mál staðarins í Kópavogi kom til kasta leyfisveitanda, sem er sýslumaðurinn í Kópavogi, og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem er lögboðinn umsagnaraðili um rekstrarleyfið. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lagðist gegn því að leyfið yrði veitt með ýmsum rökum, sem koma fram í fylgiskjali með frumvarpinu. Á grundvelli umsagnar lögreglustjórans í Reykjavík synjaði sýslumaðurinn í Kópavogi þessum stað um leyfið. Sú ákvörðun var kærð til hæstv. dómsmálaráðherra sem felldi úrskurð í málinu 15. maí 2008 og er sá úrskurður einnig í fylgiskjali með málinu, virðulegur forseti.

Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins um umsagnir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem á endanum urðu tvær, er sagt að verulegir annmarkar hafi verið á efnistökum í úrskurðinum og leiddi það til ógildingar ákvörðunar sýslumannsins í Kópavogi. Þó beindi ráðuneytið því til sýslumannsins að hann leitaði eftir nýrri umsögn lögreglustjórans áður en hann tæki veitingu umrædds leyfis til meðferðar á ný. Málinu lyktaði með því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út nýja umsögn þar sem í ljósi úrskurðar dómsmálaráðuneytisins þótti ekki annað fært en að mæla með því að leyfið yrði veitt. Á sama tíma hafði borgarráð Reykjavíkurborgar til umfjöllunar endurnýjuð leyfi fyrir þá tvo staði sem eru í Reykjavík en þeir óskuðu báðir eftir að fá heimild til að bjóða upp á nektardans. Ráðið hafði áður samþykkt að mæla ekki með því að slík leyfi yrðu veitt. Þegar úrskurður dómsmálaráðuneytisins lá fyrir þótti borgarráði hins vegar ekki fært annað en að veita jákvæða umsögn og gerði það á fundi sínum 28. ágúst 2008 með bókun. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að lesa upp bókun borgarráðs Reykjavíkur:

„Nýlegur úrskurður dómsmálaráðuneytisins varðandi nektardans á veitingastaðnum Goldfinger í Kópavogi vekur áleitnar spurningar um hvort 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, sem kveður á um bann við slíkri starfsemi, sé gagnslítil. Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu og því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða.“

Þannig að þverpólitískt borgarráð, allir flokkar í borgarráði, skorar á Alþingi að breyta lögunum eins og verið er mæla fyrir á þessari stundu. Eins og málsmeðferð og öll umræða hefur verið ríkir nú óvissa um túlkun á 4. mgr. 4. gr. laganna, þ.e. á undanþáguákvæðinu.

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að vilji löggjafans sé skýr í þessum efnum og því er í frumvarpinu lagt til að framangreint undanþáguákvæði verði fellt brott. Að því gerðu stendur eftir fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Svo mörg voru orð mín um þetta frumvarp og ég legg til að því verði vísað til hv. allsherjarnefndar, sem að mínu mati á að geta afgreitt þetta mál á stuttum tíma vegna þess að það er ekki nýtt af nálinni. Um það hefur verið fjallað hér áður. Það hefur fengið umsagnir og skoðun í allsherjarnefnd og við erum með þverpólitíska áskorun frá borgarráði Reykjavíkur um að taka þetta skref.