136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:02]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram frumvarp til laga um Bjargráðasjóð. Verði frumvarpið að lögum mun það koma í stað núgildandi laga um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að Bjargráðasjóður starfi áfram að miklu leyti í óbreyttri mynd, þó með þeirri meginbreytingu að sveitarfélögin hætta aðkomu að sjóðnum og fá greiddan út eignarhluta sinn. Þá er í ákvæði IV til bráðabirgða ákaflega merkileg heimild til að Bjargráðasjóður geti á árinu 2009 veitt bændum stuðning til að draga úr hættu á uppskerubresti sem geti leitt af sér óæskilegan samdrátt í búvöruframleiðslu.

Bjargráðasjóður á sér langa sögu. Hann var settur á fót með lögum nr. 45/1913 í þeim tilgangi að koma til hjálpar landsmönnum í hallæri eða til að afstýra því. Á þeim tíma gátu búfjárfellir og önnur áföll í landbúnaði haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa sveitarfélaganna. Var stjórn sjóðsins m.a. falið það hlutverk að hafa vakandi auga á öllum hallærishættum og veita landsstjórninni lið til allra framkvæmda sem miðuðu að því að afstýra hallæri.

Margt hefur hins vegar breyst í landbúnaði og okkar samfélagi síðan þá. Hlutverk sjóðsins hefur enda tekið verulegum breytingum frá stofnun hans. Í dag eru sveitarfélögin og aðrir opinberir aðilar betur í stakk búin til að mæta áföllum sem dunið geta á landsmönnum frá einum tíma til annars. Því hafa verið uppi umræður um hvert eigi að vera hlutverk sjóðsins í dag og hverjir eigi að annast verkefni hans. Meðal annars hafa sveitarfélögin, sem einn af eigendum sjóðsins, lagt áherslu á að þátttöku þeirra í starfsemi Bjargráðasjóðs verði lögð af.

Á 135. löggjafarþingi 2007–2008 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um brottfall núgildandi laga um Bjargráðasjóð. Markmið frumvarpsins var að leggja niður Bjargráðasjóð og skipta hreinum eignum sjóðsins milli eigenda hans, þ.e. ríkisins, sveitarfélaganna og Bændasamtaka Íslands. Fyrirkomulagi í tryggingamálum landbúnaðarins yrði hins vegar vísað til umræðu á vettvangi Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Málið hlaut ekki framgang á Alþingi og í framhaldi af því var ákveðið að fara yfir efnisatriði frumvarpsins á nýjan leik, einkum vegna ábendinga og athugasemda frá Bændasamtökum Íslands.

Niðurstaðan af þessum viðræðum endurspeglast í því frumvarpi sem hér er lagt fram og felur í sér sátt um það milli núverandi eigenda sjóðsins að Bjargráðasjóður starfi áfram en án sveitarfélaganna. Sjóðurinn verði eftir þessa breytingu sameign ríkis og Bændasamtaka Íslands. Ekki eru gerðar grundvallarbreytingar á öðrum ákvæðum sjóðsins en hvað þetta varðar.

Í ákvæði II til bráðabirgða er lagt til að frá og með 1. janúar 2009 falli niður skylda sveitarfélaga til að greiða framlag í sjóðinn. Í þessu felst að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimtir ekki hjá sveitarfélögunum framlag þeirra í sjóðinn vegna ársins 2009 verði frumvarp þetta að lögum. Aðrir tekjustofnar haldast óbreyttir, samanber 5. gr. frumvarpsins, en við bætist stafliður sem gerir ráð fyrir að sjóðurinn geti haft aðrar tekjur en greiðslur af búnaðargjaldi, framlög ríkissjóðs og vaxtatekjur. Hvað ríkissjóð varðar felst ákvæði um að framlag ríkissjóðs geti numið allt að 80 millj. kr. á ári eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum óbreytt. Síðustu árin hafa 10 millj. kr. runnið til Bjargráðasjóðs úr ríkissjóði.

Nettóeign Bjargráðasjóðs í árslok 2007 var samkvæmt ársreikningi 659,3 millj. kr. Ef sjóðnum yrði skipt upp miðað við þær forsendur næmi þriðjungshluti sveitarfélaganna 219,7 millj. kr. Miðað við drög að ársreikningi sjóðsins 2008 er nettóeign hins vegar komin í um 760 millj. Gera má ráð fyrir að nokkra mánuði taki að ljúka uppgjöri á eignum og skuldbindingum sjóðsins og afgreiða innsendar umsóknir sveitarfélaganna miðað við þær forsendur sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Yrði þá endanlega ljóst hver hlutur sveitarfélaganna yrði.

Ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir að hlutverk sveitarfélaganna renni til Sambands íslenskra sveitarfélaga og sambandið noti þá eignarhlutdeild m.a. til að kaupa 15% hlutdeild Bjargráðasjóðs í 5. hæð húseignarinnar að Borgartúni 30 í Reykjavík, sem metin er í ársreikningi 2007 á tæpar 24 millj. kr., og til að mæta ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum Bjargráðasjóðs sem sambandið yfirtæki. Samtals námu þær skuldbindingar rúmlega 50 millj. kr. í árslok 2007.

Gert er ráð fyrir að uppgjöri sjóðsins verði lokið fyrir árslok 2009 og mun þá liggja fyrir eigið fé Bjargráðasjóðs eftir þessa breytingu. Verður við það uppgjör tekið tillit til innsendra umsókna á árinu 2009 og annarra skuldbindinga sjóðsins, svo sem lífeyrisskuldbindinga vegna starfsmanna. Lagt er til að stjórn sjóðsins verði falið að stýra því uppgjöri og er gert ráð fyrir að kostnaður við uppgjörið, þar á meðal vegna nauðsynlegrar sérfræðivinnu, greiðist af sjóðnum.

Hæstv. forseti. Eins og áður sagði er gert ráð fyrir því í sérstöku bráðabirgðaákvæði að stjórn sjóðsins hafi heimild á árinu 2009 til að veita bændum stuðning til að draga úr hættu á uppskerubresti sem geti leitt af sér óæskilegan samdrátt í búvöruframleiðslu. Þessi tillaga er sett fram í samræmi við umræður sem fóru fram á búnaðarþingi í síðustu viku.

Vegna hins alvarlega ástands nú um mundir í íslensku efnahagslífi eru uppi blikur á lofti varðandi áburðarkaup bænda í vor og eru miklar líkur á því að hækkandi áburðarverð og lausafjárskortur leiði til þess að fjöldi bænda hafi ekki bolmagn til þess að fjármagna áburðarkaup. Áætlað er að aukinn kostnaður fyrir bændur vegna áburðarkaupa á árinu 2009 miðað við árið á undan geti numið um 700 millj. kr. Er það mat Bændasamtaka Íslands að fyrirsjáanlegt sé að skortur geti orðið á búvöruframleiðslu af þessum sökum og hefur sú ósk því komið fram frá samtökunum að Bjargráðasjóði verði heimilað að ráðstafa fé á árinu 2009 vegna þessara sérstöku aðstæðna til að minnka líkur á uppskerubresti sem leiða mundi til samdráttar í búvöruframleiðslu. Bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir því að stjórn Bjargráðasjóðs setji nánari reglur um þessa sérstöku ráðstöfun úr almennu deild sjóðsins, svo sem skilyrði fyrir úthlutun og hve hárri fjárhæð skuli varið til verkefnisins. Það skilyrði er þó sett að stjórnin skuli gæta þess að greiðslur á þessum grunni skerði ekki hlut sveitarfélaganna í uppgjöri samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða I og II.

Virðulegi forseti. Þetta ákvæði sem er sett í bráðabirgðaákvæði gagnvart áburðarkaupum hjá bændum er ákaflega merkilegt atriði. Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar þá var það merkilegt verkefni sem sjóðurinn hafði á upphafsárum sínum þegar lögin voru sett árið 1913 þar sem talað er um hallærishættu og að veita landsstjórninni lið til allra framkvæmda sem miðuðu að því að afstýra hallæri. Þetta ákvæði sem þarna er inni verður vonandi notað og nýtist bændum vonandi vel, þ.e. styrkir til áburðarkaupa.

Þar að auki vil ég nefna, virðulegi forseti, af því að ég hef ekki haft tækifæri til þess áður á hinu háa Alþingi, eitt atriði til viðbótar sem kemur bændum og fólki í dreifbýli ákaflega vel og það er nýlegur samningur sem ríkisstjórnin samþykkti að gera við Símann út af háhraðanettengingum til þeirra sem ekki hafa það nú. Sá samningur gerir ráð fyrir að á næstu 18 mánuðum verði háhraðanettengingum og háhraðanetþjónustu komið til um 1.800 sveitabæja á landinu og þetta á að gerast á ekki lengri tíma en 18 mánuðum. Þetta vildi ég nefna hér vegna þess að þetta er ákaflega mikilvægt atriði, baráttumál sem lengi hefur verið unnið að og hefur í raun og veru tekið of langan tíma, en ég hef líka sagt, virðulegi forseti, að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og að við þær tafir sem urðu á útboði Fjarskiptasjóðs og þeirri vinnu sem leiddi til þess að samningur var loks undirritaður við Símann, þá er ég sannfærður um að við fengum miklu betri tæknilausnir boðnar fram en við hefðum fengið fyrir einu eða einu og hálfu ári síðan. Þannig er þróunin í þessu.

Virðulegi forseti. Segja má að þetta sé ákveðin gleðistund, að geta flutt annars vegar frumvarp með þessu ákvæði til bráðabirgða um áburðarkaup til bænda og hins vegar að hafa tækifæri til þess á hinu háa Alþingi að nefna þetta atriði um háhraðatengingarnar vegna þess að þarna er miklu baráttumáli og jafnréttismáli loksins siglt í höfn. Má segja að betra er seint en aldrei og vonandi gengur þetta verkefni svo vel fram að það taki ekki einu sinni 18 mánuði eins og ég hef heyrt fulltrúa Símans tala um. En rétt er að minnast á það líka, virðulegi forseti, að það stóð mjög tæpt með þennan samning. Tilboðin voru opnuð og síðan kom efnahagshrunið og forsvarsmenn þeirra sem buðu hafa oft rætt það við mig að ekki væri hægt að standa við þetta tilboð, það mundi ekki takast að gera það en alltaf tókst okkur að halda lífi í verkefninu sem endaði með þessum samningi. Hér í ræðustól vil ég þakka viðsemjendum okkar alveg sérstaklega fyrir það vegna þess að það var ánægjulegt að geta siglt þessu í höfn, eins og ég sagði áðan, og látið þetta mál verða að veruleika.