136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:18]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Þessi ræða hæstv. samgönguráðherra er mjög athyglisverð vegna þess að hann sat í þeirri ríkisstjórn sem gerði tillögur hingað til þingsins um að skera niður framlög til Fjarskiptasjóðs. Það var ekki þingið, það var ríkisstjórnin, það var hæstv. samgönguráðherra sem sjálfur gerði þær tillögur að skera niður framlög til Fjarskiptasjóðs. Það var þingið sem tók fram fyrir hendurnar á honum og breytti fjárlagafrumvarpinu frá því að skera niður Fjarskiptasjóðinn til þess að hægt væri að koma þá af stað þeim framkvæmdum sem svo lengi höfðu dregist.

Árið 2007 var gert ráð fyrir því að þessum útboðum væri komið af stað. Það kann vel að vera að hæstv. samgönguráðherra finnist við hæfi að kenna mér um að framkvæmdir hafi ekki farið af stað. Ég tek þá ábyrgð á mig að því leyti sem ég á. Ég fékk hins vegar samþykkta fjarskiptaáætlun hér á Alþingi, ég fékk samþykkta fjármuni til að setja í þessa framkvæmd sem átti að duga og dugar ríflega til að hægt sé að ljúka henni, en það kom í hlut hæstv. samgönguráðherra, Kristjáns Möllers, að hrinda þessu í framkvæmd um mitt ár 2007, hann hafði seinni part ársins 2007, allt árið 2008 og nú er komið fram á árið 2009 og þessu verki er ekki lokið sem átti að ljúka fyrir árslok 2007. Hæstv. ráðherra þýðir hvorki að kenna mér né símafyrirtækjunum um. Þetta er fyrst og fremst spurning um skipulag og að það voru uppi áform um að skera Fjarskiptasjóðinn niður. Þess vegna fór allt saman í stopp, þar er skýringin, hin raunverulega skýring á því að framkvæmdir eru ekki búnar.