136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:57]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég vil í örfáum orðum fara yfir afstöðu mína til þessa frumvarps. Ég styð málið eins og það er lagt fram, ég tel bæði rétt og skylt að fyrir hendi sé sjóður af þessu tagi sem grípi inn í þegar aðstæður eru á þann veg sem lýst er í frumvarpinu. Það er skynsamlegt að hafa Bjargráðasjóð eða sjóð sem safnað er í fé til að mæta áföllum, sem eðli málsins samkvæmt gerast ekki oft heldur af og til, og bæta þeim tjón sem fyrir því verða með greiðslum úr sjóðnum. Mér finnst líka eðlilegt að hafa fyrirkomulagið þannig að þeir sem eiga kost á bótum eða styrkjum úr sjóðnum vegna tjóns sem þeir hafa orðið fyrir leggi eitthvað inn í hann sjálfir þannig að þeir finni til þess að þeir beri ábyrgð á sjóðnum og starfsemi hans. Þeir hafi líka áhrif á hvernig hann er á hverjum tíma og hvernig hann þróast.

Óhjákvæmilegt er hins vegar að ríkissjóður leggi til fé inn í slíkan sjóð, eins og gert er ráð fyrir, og reyndar má segja að á undanförnum árum hafi ríkissjóður komið sér að mestu leyti undan því hlutverki sínu að leggja til fé í þessu skyni. Það hafa verið óverulegar fjárhæðir sem ríkissjóður hefur lagt inn í Bjargráðasjóð eða um 10 millj. kr. á ári, sem hrekkur engan veginn til til þess að safna upp höfuðstól sem hægt er að grípa til þegar á þarf að halda. Ég legg því áherslu á það, virðulegi forseti, að að sjóðnum standi þeir sem eiga þess kost að njóta úr honum og leggi eitthvað til hans og hins vegar að ríkissjóður leggi fram verulegt fé til að safna í sjóð sem yrði til ráðstöfunar þegar á þarf að halda.

Það sem vekur athygli mína sérstaklega í þessu máli er að ástæða er til að skoða hvort ekki sé rétt að sjóðurinn hafi víðtækara hlutverk en gert er ráð fyrir í frumvarpinu, sem sagt að tryggja matvælaframleiðslu í landinu að einhverju marki. Við erum mjög háð innflutningi matvæla, kannski háðari en flest önnur lönd. Vegna veðurfars getum við síður framleitt ýmsar vörur hér á landi sem hægt er að gera erlendis og u.þ.b. helmingurinn af hitaeiningaþörf landsmanna er fenginn með innfluttum vörum sem er mjög hátt hlutfall miðað við það sem gengur og gerist, t.d. innan Evrópusambandsins. Það er af eðlilegum ástæðum og við munum þurfa að búa við það. Það þýðir líka að við erum viðkvæmari fyrir því ef verður af einhverjum ástæðum tekið fyrir innflutning á þessum vörum og þolum miklu skemur en margar aðrar þjóðir truflun á því.

Ég held að við þurfum að huga að atriði sem stundum hefur verið kallað „matvælaöryggi“. Mér finnst að eitt af hlutverkum Bjargráðasjóðs geti einmitt verið að tryggja eftir því sem kostur framleiðslu hér á landi sem er þó í það miklum mæli að þjóðin gæti brauðfætt sig um einhvern tíma án þess að til stórra vandræða kæmi ef tekið yrði fyrir innflutning með einum eða öðrum hætti. Við upplifðum þær aðstæður í haust að það var raunveruleg hætta á því að við gætum ekki flutt inn vörur, við urðum að byggja einvörðungu á innlendri framleiðslu. Þessar aðstæður geta því komið upp, bæði af efnahagsástæðum eins og þá voru, líka af öðrum ástæðum eins og sjúkdómahættu, þannig að við þurfum að vera við því búin á hverjum tíma að geta brugðist við aðstæðum sem leitt geta til þessarar stöðu.

Ég held að Bjargráðasjóður eigi að hafa þetta hlutverk. Ég er sammála því sem lagt er til í frumvarpinu, að hluti af eigin fé sjóðsins verði greitt út núna til að tryggja framleiðslu með því að greiða niður mikla verðhækkun á áburði. Eitt af því sem gerir framleiðslu okkar viðkvæma er hvað við erum háð innfluttum áburði. Ég legg áherslu á að tekið verði til athugunar í framhaldinu að styrkja lagagrundvöll sjóðsins þannig að hann nái yfir þetta nýja hlutverk sem óbeint er komið undir hann með útgreiðslu fjár vegna áburðarkaupa. Að settur verði niður hópur og hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að málið verði tekið inn að lokinni afgreiðslu þessa frumvarps, það skoðað og lagt fram frumvarp um breytingu á því til þess að tryggja að þetta sjónarmið nái betur fram að ganga og treysta í sessi stöðu þjóðarinnar þannig að hún geti á hverjum tíma verið sæmilega sjálfbjarga í fæðuframleiðslu.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um afstöðu mína til málsins, hún er svo sem komin fram í þessu stutta erindi, ég styð málið.