136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[12:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér Bjargráðasjóð sem á sér mjög langa sögu og hér er gert ráð fyrir að sveitarfélögin fái sinn hluta útgreiddan úr þeim sjóði en eftir standi ríkið og Bændasamtökin með sinn eignarhlut og skipti honum jafnt á milli sín.

Ég hef flutt frumvarp nokkrum sinnum um að leggja niður búnaðargjald því að það er ekkert annað en skylda til að leggja félagsgjald á venjulegt fólk, þ.e. bændur, til að greiða inn í félagasamtök sem þeim ber ekki skylda til að vera í samkvæmt stjórnarskránni. Auðvitað ætti búnaðargjaldið að vera frjálst og þá mundu kannski aukast kröfur manna á það hvernig Bændasamtökin starfa og hvernig kostnaði þar er háttað.

Varðandi Bjargráðasjóðinn einan sér þá hefur verið bent á það mörgum sinnum að þær tryggingar gætu náttúrlega verið inni í viðlagatryggingu eða bara á frjálsum tryggingamarkaði, starfsemi hans er í rauninni á margan hátt orðin úrelt. Í því frumvarpi sem ég flutti síðast um að fella niður búnaðargjaldið kemur fram að hlutfall rekstrargjalda af styrkjum hefur verið afskaplega hátt í þessum sjóði, þ.e. hann borgar á milli 30% og yfir 50% af styrkjum í rekstrarkostnað. Til dæmis er framlag bænda af búnaðargjaldinu nú orðið lægra en kostnaður við rekstur sjóðsins. Þetta finnst mér vera athyglivert og sýnir að það virðist ekki vera haldið mjög mikið utan um kostnað í þessum sjóði, hann er bara allt of dýr.

Eftir að þjóðin lenti í þessum áföllum þarf hún virkilega að fara að skoða hvort ekki sé ástæða til að minnka kostnað eins og þennan, minnka kvaðir á stéttir eins og búnaðargjaldið og iðnaðarmálagjaldið eru, en það vill svo til að iðnaðarmálagjaldið bíður nú dóms hjá mannréttindanefnd Evrópu sem hefur samþykkt að taka það gjald upp og mun fella dóm. Nú veit maður reyndar ekki hvernig sá dómur verður en ef hann verður í þá veru að þetta sé ekki heimilt, að þetta brjóti stjórnarskrána þar sem þetta fer í móti félagafrelsi stjórnarskrárinnar og brjóti þannig mannréttindi, þá þarf að sjálfsögðu að horfa til annarra gjalda, eins og búnaðargjaldsins, fiskræktargjaldsins og STEF-gjalda o.s.frv. þar sem menn hafa sett alls konar gjöld á stéttir og atvinnugreinar sem renna til einstaklinga og félaga þeirra og beita afli ríkisins með mjög stífum innheimtuaðgerðum, sektum og jafnvel fangelsi til að ná inn gjöldunum. Menn þurfa að fara að skoða alla þessa þætti. Allt eru þetta hömlur á frelsi í viðskiptum og hömlur á eðlilega viðskiptahætti.

Þess vegna er ég er hlynntur þessu, þ.e. að minnka framlag sveitarfélaganna inn í þennan sjóð sem ég hef aldrei almennilega getað skilið. Jafnframt skora ég á hv. nefnd sem fær málið til umsagnar að skoða virkilega að leggja sjóðinn niður og sjá aðrar leiðir til að ná fram þeim markmiðum sem hann gegnir, að tryggja bændur fyrir áföllum sem að sjálfsögðu mætti að tryggja eins og hvað annað annaðhvort viðlagatryggingu eða bara í frjálsum tryggingum. Mér finnst þetta vera smá hænuskref og ég er ánægður með það, en það er ósköp lítið, herra forseti, með hliðsjón af þeim gífurlegu áföllum sem íslensk þjóð hefur orðið fyrir.