136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

414. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér breytingu á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta viðskiptahætti. Í haust varð mikið hrun á Íslandi vegna þess að það voru ákveðnar veilur í tilskipunum Evrópusambandsins, t.d. varðandi Icesave. Það voru ákveðnar veilur í því að menn opnuðu fyrir frjálsan fjármagnsflutning án þess að hafa eftirlitið í lagi og án þess að setja skýrar og strangar reglur.

Hér ræðum við frumvarp frá hæstv. viðskiptaráðherra sem er samið í viðskiptaráðuneytinu og fer væntanlega á frekar léttan máta í gegnum Alþingi. Þessu vil ég vara við, herra forseti. Ég held að Alþingi hafi sofið á verðinum og ég sagði það reyndar í þingræðu 30. október síðastliðinn að ég bæri mína ábyrgð á hruninu vegna þess að ég hefði ekki verið nógu gagnrýninn á reglur Evrópusambandsins, t.d. hvað varðar Icesave-reikningana og innlánstryggingarnar og þær skuldbindingar sem þar koma til og heldur ekki varðandi t.d. gagnsæi í rekstri fyrirtækja.

Ég legg nú til af þessu tilefni að hv. viðskiptanefnd fari mjög grannt í gegnum þær athugasemdir sem hér eru og stefni að því í framtíðinni, herra forseti, að nefndin sjálf semji frumvörp um innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins og taki ábyrgð á því hvernig þessu er háttað. Ég tel mjög óeðlilegt að framkvæmdarvaldið semji lög um breytingar á tilskipunum sem Alþingi á svo að bera ábyrgð á. Ég mundi vilja, herra forseti, að Alþingi markaði þá stefnu — það gengur að sjálfsögðu ekki alveg eins og skot — að koma hér upp fullbúnu liði sérfræðinga á nefndasviði sem getur farið í gegnum mál, flytji þá sérfræðinga frá ráðuneytunum inn í Alþingi, Alþingi er jú með fjárveitingavald, og fari að sinna þessum reglum Evrópusambandsins á mjög alvarlegan hátt og fari mjög gagnrýnið í gegnum þær. Ég tel þetta mjög brýnt.

Það hefur verið þannig hér á Alþingi að menn hafa skautað mjög létt yfir þessar reglur Evrópusambandsins og sagt að það sem Evrópusambandið geri sé örugglega skynsamlegt og gott og skothelt. Svo kemur í ljós að það er bara ekkert skynsamlegt og það er ekki skothelt. Og að sjálfsögðu er þá Alþingi ásakað um það að hafa ekki staðið á verðinum.

Ég held að Alþingi þurfi að bregðast við þessu með því að gera sig sjálfstæðara gagnvart framkvæmdarvaldinu og taka yfir lagasmíð í sambandi við þessar reglur Evrópusambandsins og fara mjög gagnrýnið í gegnum það. Það er mjög ankannalegt að einhverjir starfsmenn hjá framkvæmdarvaldinu eigi samskipti við Evrópusambandið varðandi lagasetningar.

Við erum jú löggjafarsamkunda, hv. Alþingi, og eigum að semja lög sem allra mest. Ég vil sjá mikla breytingu á þessu og ég tel að sú breyting sé mjög brýn og alveg sérstaklega að við höldum vöku okkar hvað varðar tilskipanir Evrópusambandsins og sendum þeim nótu ef þar eru einhverjir gallar eins og t.d. varðandi innlánstryggingarnar. Ég hef sagt að þær veilur séu í innlánstryggingakerfinu — sem kemur svo fram í Icesave-reikningunum og gætu hugsanlega varpað íslenskri þjóð í áratugafátækt — að þar hefði þurft að vera einn innlánstryggingarsjóður fyrir alla Evrópu og helst heiminn, þar sem innlánsstofnanir í allri Evrópu borguðu iðgjöldin og hann gæti þá ráðið við áföll eins og urðu á Íslandi þegar 80% af markaðnum hrundi eða í Hollandi, ef þar skyldi nú koma slæm staða upp, eða í Bretlandi o.s.frv.

Þessi innlánstryggingarsjóður þarf líka að hafa heimild til þess að grípa inn í reikninga sem vaxa mjög hratt eins og gerðist í Hollandi. Og alveg sérstaklega þarf hann að skoða það ef verið er að bjóða óeðlilega háa vexti miðað við þá sem eru í kring eins og var í Hollandi. Þess vegna varð svona mikil aukning á þeim viðskiptum. Auk þess þarf að koma í gegn í öllu Evrópusambandinu þeirri reglu að innlán hafi forgang í þrotabú þannig að menn séu ekki að deila um hvort það sé skynsamlegt eða ekki. Ég held að það sé bráð nauðsyn ef menn ætla að auka tiltrú fólks á innlánum. Við Íslendingar erum að lenda í verulega slæmum málum út af þessu.

Ég held að við þurfum að halda vöku okkar í lagasetningu. Alþingi þarf hreinlega að breyta algjörlega um stefnu þannig að nefndir þingsins semji öll frumvörp sem þar verða að lögum. Það geri það samkvæmt beiðni frá t.d. ráðuneytum, t.d. félagasamtökum eða einstaklingum og þeir aðilar beini til nefndarinnar óskum um breytingar. Í kjölfarið ákveði nefndir hvort þær semji frumvarp eða láti semja frumvarp á því sviði og feli svo fjölmennu nefndasviði að gera það. Þetta er ekki kostnaðarauki því að Alþingi mundi flytja yfir til sín sérfræðinga frá ráðuneytum og stofnunum sem í dag eru að semja frumvörp.