136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

414. mál
[12:18]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Þetta mál lætur ekki mikið yfir sér og ef til vill er það hið sanna eðli málsins, að það er lítils háttar og ekki ástæða til að gera miklar athugasemdir við það, en það mun þá koma í ljós eftir athugun málsins í hv. nefnd. Ég óska því eftir að nefndin fari vandlega yfir málið í ljósi þeirra athugasemda eða ábendinga sem fram komu í umræðunni.

Það sem mér finnst ástæða til að huga að, a.m.k. á þessu stigi, er að breytingin sem frumvarpið felur í sér er að fækka um einn aðila hjá þeim sem koma að málinu áður en tilteknar breytingar frá Evrópusambandinu öðlast lagagildi hér á landi. Það er verið að fækka um Alþingi sjálft. Verið er að taka löggjafarvaldið út úr dæminu sem aðila að lagabreytingunum með því að löggjafarvaldið fallist á að fela ráðherra það vald að hann geti tekið inn breytingar sem verða á tilteknum viðauka við tiltekna reglugerð og fært þær breytingar inn í reglugerð sem þannig mundi öðlast stöðu laga hér á landi án þess að Alþingi kæmi nokkurn tímann að málinu og fengi hvorki málið til athugunar né tæki það til skoðunar. Því virðist vera að verið sé að stytta sér leið í þessu ferli og er kannski það sem við má búast þegar um er að ræða Evrópusambandið. Tilhneigingin þar er sú að hafa ferlið sem styst og er mest hjá embættismönnum og sérstaklega embættismönnum og tilteknum stjórnmálamönnum í Evrópusambandinu.

Þetta á sér dálítinn hljómgrunn víða í aðildarríkjum Evrópusambandsins og kannski helst hjá þeim sem hafa áhrif á þetta ferli, þ.e. embættismenn og ráðherrar. Því eru það yfirleitt þjóðþingin sem verða fyrir barðinu á þessari þróun og þau þurfa því að huga að stöðu sinni. Ég er ekki að segja að þjóðþingin eigi alltaf að láta öll mál koma inn á sitt borð. Það þarf auðvitað að vega og meta hvernig menn draga línuna. Því óska ég eftir að nefndin skoði það því ég hef ekki kynnt mér til hlítar þau efnisatriði sem felast í þessum viðauka. Þau kunna að vera þess eðlis að ekki sé óeðlilegt að skipa málum á þennan hátt.

En mér sýnist hins vegar og vek athygli á því að ekki sé alveg víst að viðaukinn sé afmarkaður. Mér sýnist að hægt sé að bæta við nýjum ákvæðum inn í viðaukann í Evrópusambandinu og þannig gætu þau ákvæði komið inn í reglugerð hér á landi. Ég spyr því: Geta það verið ný efnisatriði? Er viðaukinn það afmarkaður að innihaldi að ekki sé hægt að bæta við nýjum ákvæðum sem útvíkka í raun gildissvið hans? Mér sýnist að það sé alveg opið að Evrópusambandið geti notað viðaukann til að setja inn ný ákvæði sem ná yfir á stærra og stærra svið, og það gæti orðið svo eftir einhvern tíma að ákvæðin sem koma inn séu þess eðlis að Alþingi á þeim tíma fyndist það óeðlilegt að slík mál kæmu ekki til Alþingis og yrðu afgreidd sem lagafrumvörp, annaðhvort með því að Alþingi féllist á þau eða teldi að ekki ætti að taka þau inn.

Mér finnst þetta vera atriði sem þarf að skoða því löggjafarvaldið verður auðvitað að gæta að því að afsala sér ekki löggjafarvaldinu í svo ríkum mæli eða með svo opnum heimildum að ráðherrar geti haft nokkurt sjálfdæmi um það hvernig þeir fara með það vald og komist upp með að halda því fram að allt rúmist innan slíkrar heimildar. Við höfum dæmi um það, sem nýlega kom til umræðu á þinginu, um notkun á bráðabirgðalagavaldi ráðherra sem var auðvitað ekkert annað en misbeiting á því, bráðabirgðalögin sem sett voru hér í sumar. En lítið er hægt að gera við því vegna þess að stjórnarskráin er þannig úr garði gerð að ráðherrann hefur mat um það sjálfur. Enginn getur hnekkt því mati nema hugsanlega dómstólar. Hver verður til þess að fara með svona mál til dómstóla?

Mér sýnist að þetta sé þess eðlis að ráðherrann hafi nokkuð frjálst mat á því svo lengi sem ný efnisatriði eru í viðaukanum með formlegum hætti. Ég vek t.d. athygli á því sem segir í athugasemdum við 1. gr. að ráðherrann geti bætt inn sem reglugerðarákvæði nýjum tölulið við viðaukann sem, með leyfi forseta, er svohljóðandi:

„Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005.“

Það er bara heil tilskipun sem hægt er að taka inn í viðaukann. Það er nú dálítið mikið. Mér finnst þetta vera svolítið opið og ég vil biðja nefndina um að skoða þetta. Kannski er þetta ekki eins víðfeðmt og ég óttast. Ég hef ekki farið ofan í málið til hlítar, ég hef því þann fyrirvara. En ég bendi á þennan annmarka sem mér finnst vera, þetta má ekki vera opin heimild til að setja inn nánast hvað sem er svo lengi sem Evrópusambandinu dettur í hug að setja það undir réttan viðauka.