136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti og fleira sem almennt hefur gengið undir nafninu greiðsluaðlögun.

Nefndin hefur undanfarnar vikur unnið að útfærslu þessa úrræðis og farið ítarlega yfir það á fjölmörgum nefndarfundum. Eins og fram kemur í nefndaráliti var kallaður fyrir nefndina mikill fjöldi gesta sem skýrði afstöðu hagsmunaaðila til úrræðisins og fjallað var vandlega um einstaka þætti málsins.

Það frumvarp sem hér um ræðir felur í sér mikil tímamót hvað varðar réttarstöðu almennings sem verður fyrir því að missa stjórn á skuldamálum. Með greiðsluaðlögunarúrræðinu er tryggt að þeir skuldarar sem komast í þrot og standa að öðrum kosti frammi fyrir gjaldþroti geti fengið að ljúka málum sínum með því að binda aflahæfi sitt um tiltekinn tíma í þágu kröfuhafa en losna að því loknu undan frekari skuldbindingum.

Fram kom á fundum nefndarinnar að hægt er að hugsa sér að með hinu nýja greiðsluaðlögunarúrræði verði til algjörlega nýtt kerfi til að ljúka gjaldþrotaskiptum og þessi leið verði vonandi það úrræði sem flestir nýti sér til þess að ljúka gjaldþrotaskiptum. Við þekkjum það í dag að gjaldþrota einstaklingar standa frammi fyrir því að verða lengi að kljást við afleiðingar gjaldþrotsins. Kröfum er viðhaldið gagnvart þeim og þeir eiga erfitt með að losna undan afleiðingum gjaldþrotsins. Þeir þurfa að greiða hverjum kröfuhafanum á fætur öðrum. Þeir þurfa að greiða vexti og kostnað og ef þeir vilja reyna að taka ábyrgð á eigin málum geta þeir endað í þeirri stöðu að þeir bindi sér slíka bagga að þeir fái ekki risið undir því. Það kallar hrikalegt áfall yfir fólk og við vitum mörg sorgleg dæmi þess að fjölskyldur brotna upp, heimili leysast upp og fólk missir sjálfsvirðinguna vegna þess að það nær ekki að standa undir skuldbindingum sínum. Fólk sem samt sem áður hefur einlægan vilja til þess að efna skuldbindingar sínar og rísa undir þeim.

Það úrræði sem hér um ræðir felur í sér einfalda leið til þess að mæta einstaklingum við þessar aðstæður. Í því felst að þeir sem eru tilbúnir til þess að taka ábyrgð á þeim skuldum sem þeir standa frammi fyrir við gjaldþrot geti gert það. Skuldbundið sig til að greiða kröfuhöfum það sem þeir geta raunverulega aflað á næstu árunum á eftir og þar með njóta kröfuhafar þess að meira fæst greitt upp í kröfur en ella. Á móti verða kröfuhafar að sæta því að þær kröfur sem þá standa út af falli niður. Þannig að þegar sá einstaklingur sem nýtir sér greiðsluaðlögunarúrræðið hefur lokið við sitt samkvæmt greiðsluaðlögunaráætluninni er hann laus allra mála og getur um frjálst höfuð strokið á ný.

Hér er því að mínu viti um gríðarlega réttarbót að ræða í íslenskri löggjöf og mjög mikilvægt skref, tímamótaskref. Það er mjög mikilvægt, sérstaklega á þessum óvissutímum í efnahagsmálum, að gefa fólki skýr fyrirheit um það að gjaldþrot þarf ekki að hafa í för með sér varanlega útskúfun úr samfélaginu eða langvarandi erfiðleika. Greiðsluaðlögunarúrræðið mætir öllum þeim mikla meiri hluta skuldara sem vill axla ábyrgð á eigin skuldbindingum eftir getu og greiða það sem þeim er mögulegt að greiða upp í kröfur. Úrræðið mætir líka kröfuhöfum að því leyti að þeir fá þá hlutdeild í framtíðaraflahæfi þrotamanns samkvæmt greiðsluaðlöguninni og fá þá greitt það sem raunsætt er að fáist greitt upp í kröfur þeirra.

Í meðförum nefndarinnar var mikið fjallað um hvort greiðsluaðlögun ætti að taka til veðkrafna. Frumvarpið sem til meðferðar var tók að efni til einungis til samningskrafna, þ.e. krafna sem ekki eru tryggðar með veði í fasteign. Úrræðið hentar því afar vel til að ljúka gjaldþrotaskiptum því að í flestum tilvikum eiga einstaklingar ekki lengur eignir þegar komið er að gjaldþrotaskiptum heldur hafa þær þegar verið seldar nauðungarsölu, eignir sem eru veðsettar. Eftir standa þá samningskröfur, þær kröfur sem ekki eru tryggðar með veði, og þá bíður úrræðið sem nú stendur til að lögfesta upp á heildstæða leið til að ljúka gjaldþrotaskiptum fyrir þessa einstaklinga.

Mikið var rætt hvort ekki væri ástæða til þess að búa jafnframt til greiðsluaðlögunarúrræði sem tæki til aðstöðu þeirra skuldara sem væru með skuldbindingar sem væru tryggðar með veði í fasteign og gera þar með kleift að laga greiðslubyrði skuldara að greiðslugetu þeirra ef hún væri minni en svo að þeir gætu risið undir afborgunum veðlána.

Því er ekki að neita að þær sérstöku aðstæður sem eru í samfélaginu í dag ollu því auðvitað að umræðan um þetta var enn fyrirferðarmeiri en hún ella hefði orðið í nefndinni. Það var niðurstaða umræðu í nefndinni að ákjósanlegt væri að reyna að leita leiða til þess að greiðsluaðlögun gæti tekið til veðlána einnig. Í framhaldi af því sendi ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu ábendingar þar um þar sem bent var á helstu þætti sem hafa þyrfti í huga að þessu leyti.

Það var ljóst að úrræðið sem ætti að taka til veðlána þyrfti að tryggja að ekki væru skapaðar aðstæður til þess að það yrði misnotað til þess að þvo almennt skuldir sem væru umfram verðrými eigna af eignunum enda gæti slíkt ekki verið tilgangurinn heldur þyrfti tillitið í slíku úrræði eins og í því frumvarpi sem hér er til meðferðar að miðast við greiðslugetu skuldarans. Það væri einnig eðlilegt að ekki væri um að ræða að slíkt úrræði tæki til eigna umfram meðalhóf heldur þyrfti að binda það við þær aðstæður þegar um væri að ræða skuldara sem væri í hóflegu húsnæði og hefði ekki raunhæfan kost á því að minnka við sig að því leyti.

Útfærsla greiðsluaðlögunarúrræðis fyrir veðlán er eðli málsins samkvæmt nokkrum erfiðleikum bundin því að hún má ekki verða til þess að skapa aðstæður fyrir óréttmæta auðgun skuldara á kostnað kröfuhafa eins og gæti hæglega orðið ef heimildin væri of rúm eða ef hún gæfi færi á því að þvo almennt af skuldir miðað við veðstöðu húsnæðis án tillits til greiðslugetu af því að á þessum tímamótum í samfélaginu er ekkert mikilvægara en að gefa skýrt þau skilaboð að allir verði að borga skuldir sínar. Það er hin almenna meginregla þó svo við reynum í löggjöf að mæta þeim sem misst hafa greiðslugetuna, og hafa ekki getu til að standa undir skuldbindingum sínum.

Í kjölfar þessarar umræðu í nefndinni og þeirra ábendinga sem sendar voru dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fór af stað vinna á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og réttarfarsnefndar um gerð lagafrumvarps sem tæki til greiðsluaðlögunar veðlána og er slíkt frumvarp nú á lokastigi. Það er mér mikil ánægja að samstaða var um það í nefndinni að leita eftir því við dómsmálaráðuneytið að nefndin hefði frumkvæði að því að flytja það frumvarp enda er það unnið að undirlagi nefndarinnar og byggt á þeim sjónarmiðum sem leidd voru í ljós við vinnu í nefndinni og síðan komið á framfæri við dómsmálaráðuneytið í kjölfarið.

Virðulegi forseti. Nokkrar umræður urðu í nefndinni um hlutverk umsjónarmanns með greiðsluaðlögun. Það liggur fyrir að úrræðið mun reyna mjög á. Það er mjög mikilvægt að umsjónarmenn taki með samræmdum hætti á þeim álitamálum sem upp koma við beitingu þessa úrræðis. Því var hreyft af mörgum aðilum sem fyrir nefndina komu að það kynni að vera varhugavert að ætla lögmönnum á almennum markaði eða jafnvel fyrirtækjum sem sérhæfðu sig í að veita þjónustu á þessu sviði hlutverk umsjónarmanns án frekari undanfara. Það kom líka fram að við þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu mætti ætla að margir mundu horfa til þessa úrræðis til þess að ljúka sínum málum á næstu missirum.

Í ljósi þessara athugasemda er það niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að æskilegt sé að heimila með ákvæði í frumvarpinu dómsmálaráðherra að fela sýslumannsembætti eða opinberri stofnun þetta hlutverk. Við umræðu í nefndinni kom fram af hálfu dómsmálaráðuneytisins að meðal þess sem til álita kæmi væri að létta innheimtuverkefnum fyrir hið opinbera af einu sýslumannsembætti og fela því embætti þetta hlutverk fyrst um sinn.

Það eru margir kostir við það að fela sýslumannsembætti þetta hlutverk. Sýslumenn hafa reynslu af því að gæta hagsmuna allra aðila við skuldaskil og hafa líka innheimtureynslu fyrir hönd ríkissjóðs við skuldaskil og þeir eru í störfum sínum fulltrúar ríkisvaldsins að fara með þau verkefni sem ríkið telur eðlilegt að fela umboðsmanni sínum á hverjum tíma.

Í öðrum störfum sínum eru sýslumenn líka bundnir af stjórnsýslulögum og hafa því næman skilning á jafnt leiðbeiningarskyldu og andmælarétti og öðrum þeim grunnsjónarmiðum sem mikilvægt er að lögð verði til grundvallar þegar tekist er á við hlutverk umsjónarmanns sem mun hafa mikil völd til að ákveða grundvallarþætti í velferð þeirra einstaklinga sem leita úrlausna samkvæmt þessu úrræði. Þeir einstaklingar eru í mörgum tilvikum í erfiðri stöðu, hafa upplifað mikið áfall og eiga kannski erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér í öllum tilvikum.

Það er því niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að æskilegt sé að heimila dómsmálaráðherra að fela opinberum aðila þetta hlutverk fyrst um sinn og það fyrirkomulag megi síðan taka til endurskoðunar þegar léttir á í efnahagslífinu og reynsla hefur komist á úrræðið og venja skapast um beitingu þess og notkun þess. Ekki var full samstaða um þetta í nefndinni og þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera fyrirvara um þetta atriði sem þeir munu nánar reifa í máli sínu hér á eftir.

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem til meðferðar var var að finna ákvæði til bráðabirgða sem heimilaði greiðsluaðlögun veðlána í þeim tilvikum þegar þau veðlán væru í eigu ríkisbankanna eða Íbúðalánasjóðs. Eins og ég gat um hér áðan var mikið rætt um fyrirkomulag greiðsluaðlögunarveðlána í nefndinni og fljótt varð ljóst að nokkuð skorti á að löggjöfin gæti með fullnægjandi hætti tekið á greiðsluaðlögun veðlána eins og hún er úr garði gerð að öðru leyti. Því var beiting þessa bráðabirgðaákvæðis nokkrum vandkvæðum háð. Í ljósi þeirrar niðurstöðu nefndarinnar og þeirrar samstöðu sem varð í nefndinni um mikilvægi þess að sett yrði í löggjöf úrræði um greiðsluaðlögun veðlána telur nefndin rétt að gera ráð fyrir að bráðabirgðaákvæðið falli niður enda mun í öðru lagafrumvarpi sem vonir standa til að nefndin flytji sjálf verða að finna heildstæð ákvæði um beitingu þessa úrræðis varðandi veðlán.

Virðulegi forseti. Að síðustu nokkur orð um þau skilaboð sem mikilvægt er að senda við núverandi aðstæður í efnahagslífinu og við sendum með frumvarpinu. Þegar á bjátar á efnahagslífið mikið undir því að allir efni skuldbindingar sínar eins og kostur er. Því er mikilvægt að viðhalda greiðsluvilja og greiðslugetu fólks. Ríkisvaldið getur með ýmsum aðgerðum reynt að viðhalda greiðslugetu fólks og af þeim ástæðum er ríkisstjórnin m.a. að leggja til viðbótarframlög í vaxtabótakerfið til að auðvelda fólki að standa undir greiðslunum. Ríkið hefur gætt hófs í skattheimtu á miklum óvissutímum þegar jafnvel mörg rök voru fyrir því að skattar yrðu hækkaðir. Með því er ríkið að reyna að tryggja að sem flestir hafi tækifæri til þess að viðhalda greiðslugetu.

Hitt er að viðhalda greiðsluvilja. Til að viðhalda greiðsluvilja er nauðsynlegt að skuldari sjái sér hag í því að efna skuldbindingar sínar og nauðsynlegt er að hann hafi fulla trú á því að þörfum hans sé mætt. Í nefndaráliti eru rakin nokkur atriði um tillit til skuldara og sérstök sjónarmið um stöðu skuldara. Í umræðum í nefndinni kom fram að mörg atriði í íslenskri löggjöf eru mjög óhentug skuldurum og hygla kröfuhöfum óeðlilega á kostnað skuldara. Með öðrum orðum, jafnræði skuldara og kröfuhafa er illa tryggt í íslenskri löggjöf, hagsmunir kröfuhafa eru frekar tryggðir en skuldara.

Mikilvægt er við þær aðstæður sem við búum við nú að senda skýr skilaboð um að öllum hindrunum í vegi þess að skuldari sjái sér hag í að borga skuldir sínar sé rutt úr vegi. Það er því tillaga nefndarinnar að ráðuneytin — því að þetta er ekki bara verkefni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins heldur líka annarra ráðuneyta — taki til endurskoðunar svo fljótt sem auðið er öll þau atriði sem geta dregið úr vilja fólks til að efna skuldbindingar sínar. Eitt atriði er augljóst, það er sú íslenska regla að kröfuhafi hafi sjálfdæmi um hvernig hann ráðstafi greiðslum inn á kröfu og geti ráðstafað þeim fyrst til greiðslu kostnaðar, síðan vaxta og síðast til greiðslu höfuðstóls. Þessi regla hefur í för með sér að um leið og á bjátar hjá skuldara hefur skuldari frekar lítinn hag af því að gera nokkuð í sínum málum. Vegna þess að innborganir inn á kröfur sem hann reynir að afla sér fjár til að inna af hendi fara fyrst og fremst til greiðslu sífellt vaxandi vaxta og kostnaðar en hann nær aldrei tökum á að greiða niður höfuðstól, sem í reynd væri það eina sem gæti bjargað honum út úr síversnandi stöðu. Þessi regla hefur því í för með sér að um leið og fer að síga á ógæfuhliðina er mjög vafasamt að halda því fram að skuldari hafi mikinn hag af því að reyna að standa í skilum vegna þess að hann lendir mjög fljótt í hringrás sívaxandi vaxta- og innheimtukostnaðar og allt það fé sem hann getur aflað til að reyna að greiða niður skuldir fer einungis í greiðslu þessa kostnaðar en ekki til að greiða niður höfuðstól kröfunnar.

Það er sérstakt fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli nú hafa tekið ákvörðun um að breyta þeirri reglu er varðar kröfur ríkissjóðs og heimila tímabundið að ráðstafa innborgunum til niðurgreiðslu höfuðstóls. Að mínu áliti er mikilvægt að breyta þessu almennt í löggjöf og mjög mikilvægt að menn horfi til þess að breyta grunnviðmiðum kröfuréttar að þessu leyti í einhverjum mæli, í það minnsta á þann veg að skuldari geti kallað eftir því að a.m.k. hluti innborgunar fari til uppgreiðslu höfuðstóls.

Virðulegi forseti. Greiðsluaðlögunarúrræðið tekur ekki heldur á ábyrgð þriðja manns. Rétt er að geta þess að í norsku greiðsluaðlögunarlögunum falla kröfur sem tryggðar eru með ábyrgð þriðja manns undir greiðsluaðlögun skuldara. Ábyrgð þriðja manns er annað fyrirbæri sem við þurfum að taka á við núverandi aðstæður í samfélaginu. Ljóst er að lánveitendur sem farið hafa offari geta freistast til þess að þvinga skuldara við núverandi aðstæður til að koma með frekari ábyrgðir fyrir kröfum, sem í reynd var alltaf á ábyrgð lánveitenda að veita og veittu með óábyrgum hætti, án fullnægjandi tryggingar og án fullnægjandi varúðarráðstafana. Það er í hæsta máta óeðlilegt að lánveitendur, t.d. íbúðalána, sem þurfa að uppfylla tiltekin lagaskilyrði til að veita íbúðalánin og þurfa að upplýsa skuldara um hverjar afborganir geti orðið o.s.frv., geti kallað eftir viðbótartryggingum í dag frá saklausu fólki úti í bæ án þess að upplýsa það fólk í nokkru um í hverju ábyrgðin sem það fólk er að axla felst. Og að hægt sé að reka að fólki án nokkurs undirbúnings eða viðvörunar skjöl til undirritunar til frekari ábyrgðar á skuldum og að þær ábyrgðir komið til stuðnings kröfum kröfuhafa á hendur skuldara, en kröfuhafinn hefði ekki getað veitt hið upphaflega lán með þeim hætti heldur hefði þurft að upplýsa lánveitandann sjálfan um umfang skuldbindingarinnar í upphafi.

Fyrir þinginu liggur frumvarp um hömlur á ábyrgðum þriðja manns sem flutt er af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og fleirum. Ég tel afar mikilvægt að það mál fáist afgreitt á þessu þingi. Það gengur ekki svo langt, eins og ég tel ýmis rök til reyndar, að banna með öllu ábyrgð þriðja manns fyrir mjög hóflegri fjárhæð, t.d. hálfri eða einni milljón, heldur gengur það einungis það langt að kalla eftir upplýsingaskyldu þeirra sem hyggjast nýta sér ábyrgðina og setja hömlur á það sjóræningjafyrirkomulag sem gildir á Íslandi að þessu leyti, þar sem lánastofnanir geta hegðað sé algjörlega með siðlausum hætti gagnvart saklausu fólki og upplýsa það ekki á neinn hátt um hvaða skuldbindingar það er að axla.

Virðulegi forseti. Við eigum gríðarlega mikið undir því við núverandi aðstæður að fólk sjái sér hag í því að halda áfram að borga af skuldbindingum sínum og við eigum mikið undir því að fólk sjái lausnir. Einhverjir munu lenda í gjaldþroti, við vitum það úr fyrri efnahagskreppum og við vitum það úr erfiðum efnahagskreppum í öðrum löndum. Markmið stjórnvalda á að vera að forða því sem kostur er. Fyrir þá sem engu að síður lenda í gjaldþroti er mikilvægt að afleiðingar gjaldþrots verði ekki þungbærar, ekki of þungbærar og leiði ekki til þess að fólk útilokist frá almennri atvinnustarfsemi eða þátttöku í samfélaginu. Núverandi kerfi gerir fólki mjög erfitt eftir gjaldþrot að vera launamenn og kaupa íbúð, með öðrum orðum, gerir því illmögulegt að taka þátt í samfélaginu. Núverandi fyrirkomulag hvetur því til svartrar atvinnustarfsemi og grefur undan heilbrigðri fjármálastarfsemi í landinu og eðlilegri þátttöku fólks í samfélaginu. Það úrræði sem til stendur að lögfesta skapar nýjan möguleika fyrir það fólk. Það skapar skýra heimild til þess að fólk geti náð utan um skuldamál sín ef það hefur vilja til að standa undir þeim, eins og allflestir skuldarar hafa, gerir fólki kleift að skuldbinda sig í takmarkaðan tíma til að greiða það sem það getur og losna að því loknu og byrja á ný með hreint borð, geti aftur verið launþegar án þess að óttast að allt sem fólk aflar fari til skuldheimtumanna, geti aftur keypt sér bíl, geti aftur keypt sér íbúð, geti haldið áfram að borga skatta og verið virkir þátttakendur í samfélaginu okkur öllum til hagsbóta.

Virðulegur forseti. Þetta er mannréttindamál og það eru gríðarleg tímamót að við skulum nú vera að koma þessu máli loksins í íslenska löggjöf. Það er þakkarvert að náðst hafi jafngóð samstaða og raun ber vitni um málið í meðförum allsherjarnefndar og ég vil sérstaklega þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir góða samvinnu og gott starf að málinu.