136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Allt ber þetta að sama brunni. Eftir hrunið síðasta haust hafa menn séð og vissu svo sem áður að ýmislegt var að í atvinnulífinu, bankakerfinu, hjá skuldurum og mjög víða, en menn tóku ekki almennilega á því. Nú er nauðsyn að taka á þessu og við verðum að efla bæði aga og siðferði í atvinnulífinu, hjá lánveitendum og líka hjá skuldurunum. Það er svo mikilvægt fyrir alla aðila að skuldarinn sé ekki brotinn niður þannig að hann greiði kannski ekki neitt, þá tapa allir. Ef hann borgar eins og hann getur, hæfilega mikið eins og hann getur risið undir, þá græða allir, jafnt lánveitendur sem skuldarinn sjálfur.

Ég er því mjög hlynntur þessu en ég vil að menn skoði mjög vendilega í hv. viðskiptanefnd málið um ábyrgðarmenn og komi því helst, ja ekki helst, ég bara skora á nefndina að afgreiða það loksins úr nefndinni svo að sá víðfeðmi ósiður í bankakerfinu að kalla til eitthvert fólk utan úr bæ til að bera ábyrgð á lánveitingum sem það kemur í rauninni ekkert nálægt, leggist af.