136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að taka enn og aftur undir með hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt að frumvarpið um ábyrgðarmenn verði að lögum nú. Þriðja manns ábyrgðir hafa kallað ótölulegar hörmungar yfir fjölda saklauss fólks í þessu landi. Þetta fyrirbæri hefur rústað fjölskyldum, fólk hefur skrifað undir pappíra án þess að gera sér nokkra grein fyrir hvað það var að skrifa undir. Þetta á ekki að geta heyrt til í siðuðu samfélagi. Menn hafa fært rök fyrir því að ekki þurfi að setja hömlur á þetta vegna þess að bankarnir hafi gert samkomulag um beitingu þessa úrræðis fyrir nokkrum árum og þá hefði dregið úr notkun úrræðisins. Það er gott og blessað að svo kunni að hafa verið á ákveðnum tíma en núna eru hættumerki vegna þess að farið er að reyna á þetta aftur.

Bankar sem lánuðu óábyrgt og ríkið hefur ekki tekið yfir eru núna úti um allar trissur að reka þriðja manns ábyrgðir upp í nefið á saklausu fólki án þess að upplýsa það fólk um hvers eðlis skuldbindingin, sem að baki stendur, er. Þetta hefur jafnvel orðið til að styðja við óábyrgar lánveitingar í myntkörfulánum sem bankarnir sjálfir áttu aldrei að veita og áttu að vara fólk við að taka — þeir eru núna að reyna að velta byrðunum og draga sem flesta með skuldaranum niður í svelginn, niður í klóakið. Það er þessi hörmulega aðstaða núna sem kallar á það enn frekar en nokkru sinni fyrr að hömlur séu settar á þriðja manns ábyrgðir. Við stöndum frammi fyrir því að þrýstingur á saklaust fólk mun bara aukast á næstu mánuðum og missirum út af ástandinu í efnahagsmálum. Það er aldrei mikilvægara en nú að þingið standi í lappirnar og hnoði þessu máli í gegn.