136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:07]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir framsögu með nefndarálitinu. Sú er hér stendur er á nefndarálitinu ásamt reyndar öllum öðrum þingmönnum í allsherjarnefnd en þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera þó fyrirvara við málið. Ég geri enga fyrirvara og styð þetta mál heils hugar.

Þetta mál gengur út á greiðsluaðlögun. Við höfum reynt að skoða hvernig þeim málum er skipað á Norðurlöndunum. Ljóst er að þar hefur greiðsluaðlögun átt sér stað um lengri tíma og þar er farsæl reynsla af úrræðum af þessum toga.

Hér er gert ráð fyrir að skuldari geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og beitt er gildandi reglum um nauðasamninga með ákveðnum frávikum sem reglur frumvarpsins hafa að geyma. Þessi frávik eru þau að skuldari þarf ekki að afla skriflegrar yfirlýsingar um meðmæli lánardrottna þannig að ákvörðun um greiðsluaðlögun er ekki háð samþykki kröfuhafa. Einnig er gert ráð fyrir því að dómskipaður umsjónarmaður taki afstöðu til þess hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á fyrir skuldara. Einnig er gert ráð fyrir því að kostnaður við þessa aðferð, þessa greiðsluaðlögun, falli að verulegu leyti á ríkissjóð.

Segja má að þetta ferli, greiðsluaðlögun, sé svona „win-win“, þ.e. það er ávinningur í því fyrir skuldarann og kröfuhafann. Verið er að koma á einföldu, ódýru og sársaukalitlu ferli fyrir skuldarann til að reyna að greiða það sem hann getur en afskrifa síðan kröfur sem í reynd eru tapaðar. Hins vegar er líka ávinningur í því fyrir kröfuhafann, eða þann sem hefur lánað skuldaranum, af því að sá aðili á þá meiri von á því að fá eitthvað af skuld sinni greitt til baka í stað þess að missa alla greiðsluna á einu bretti með hugsanlegu gjaldþroti þess sem skuldar. Báðir aðilar hafa því mikinn hag af því að reyna þessa leið í ákveðnum tilvikum þar sem möguleiki er á því að skuldarinn geti borgað hluta af skuldinni. Það er ágætt að reyna að koma upp ferli sem gerir það mögulegt með slíkri greiðsluaðlögun en afskrifa svo það sem út af stendur.

Það er líka ljóst, og kemur fram í nefndarálitinu, að við höfum fordæmi frá öðrum löndum sem hafa lent í miklum efnahagskreppum. Það hefur sést að ef margir verða gjaldþrota fylgir því mjög mikil hætta á neikvæðum afleiðingum. Þá hafa menn horft upp á að efnahagskreppur hafi þróast í djúpar félagslegar kreppur. Það er mjög brýnt að reyna að afstýra því eins og hægt er, virðulegur forseti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það séu einungis samningskröfur sem heimilt er að setja í greiðsluaðlögunarferli. Það þýðir þá í reynd að þetta úrræði tekur til allra krafna sem eru ekki tryggðar með veði. Það eru t.d. skuldir við banka vegna yfirdráttarlána, greiðslukortaskulda og það sem eftir stendur af bifreiðaláni þegar búið er að selja bifreiðina. Hins vegar er bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu sem lýtur að heimildum til nauðasamninga til greiðsluaðlögunar þegar um er að ræða kröfur sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara. Þarna koma veðkröfurnar inn í þessi bráðabirgðaákvæði.

Stóru fréttirnar, sem vert er að koma á framfæri við 2. umr., eru þær að niðurstaðan í allsherjarnefnd er á þessari stundu sú að kippa þessu bráðabirgðaákvæði út úr frumvarpinu, skoða betur veðkröfurnar almennt og dóms- og kirkjumálaráðuneytið er, eftir umræður við nefndina, að undirbúa löggjöf um tímabundna greiðsluaðlögun veðlána. Við fögnum því sérstaklega að náðst hefur samstaða í nefndinni um að flutt verði frumvarp sem hefur það að leiðarljósi að heimila tímabundna greiðsluaðlögun veðlána. Þó að þetta sé tekið út, þetta bráðabirgðaákvæði, að þessu sinni í þessu frumvarpi þá kemur það inn aftur, og fleiri veðkröfur, við síðari vinnu í þinginu. Ég held að það sé ágæt niðurstaða, virðulegi forseti.

Þetta úrræði á að beinast að almennum launþegum en í undantekningartilfellum þeim sem hafa stundað atvinnurekstur. Ljóst er að í fjölda atvinnugreina vinna menn í auknum mæli sem verktakar en eru ekki í reynd sjálfstæðir atvinnurekendur nema að nafninu til, þeir ráða ekki vinnutíma sínum og hafa ekki stofnað til skulda svo að nokkru nemi vegna rekstrarins — frumvarpinu er ætlað að taka til slíkra aðila en þó háð þeim skilyrðum að viðkomandi hafi hætt atvinnurekstri.

Nefndin ræddi svolítið um stöðu bænda og telur að eðlilegra sé að tekið sé með sérstökum hætti á greiðsluerfiðleikum þeirra, að þetta úrræði henti ekki vel fyrir þann atvinnurekstur vegna víðtækra veðsetninga bújarða, bústofns og jafnvel íbúðarhúsa bænda vegna reksturs búanna. Talið er að nauðasamningaúrræði henti betur í þeim tilfellum. Nefndin taldi sérstaka ástæðu til að beina því til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að kannað yrði hvernig nauðasamningaúrræði henti smáum atvinnurekstri og að leitað verði leiða til að einfalda slíkt ferli í ljósi fyrirsjáanlegs vanda margra smærri atvinnurekenda.

Ljóst er að verkefni umsjónarmanns er mjög víðtækt. Það er hlutverk hans að meta hvort rétt sé að veita skuldara heimild til að fara í greiðsluaðlögun. Það varð niðurstaða í nefndinni að rétt væri, eins og fram kom hjá framsögumanni, að heimila dóms- og kirkjumálaráðherra að fela sýslumannsembætti eða öðrum opinberum aðilum hlutverk umsjónarmanns til þess að gera ferlið auðveldara að því leyti að betur væri hægt að koma á samræmdu verklagi og festu í framkvæmdinni — breytingartillaga sem lýtur að því er á sérstöku þingskjali, virðulegur forseti.

Við skoðuðum líka í nefndinni hvort sérstakur tímarammi ætti að vera varðandi úrræðið. Fram kom að á Norðurlöndunum hefur sú venja mótast að greiðsluaðlögunartímabil séu 3–5 ár, í Noregi eru það 5 ár. Nefndin taldi þó ekki ástæðu til að setja sérstakan tímaramma í löggjöfina, enda getur það verið misjafnt hvað hentar viðkomandi skuldara og því eðlilegt að umsjónarmaðurinn leggi mat á það í greinargerð sinni.

Ég vil sérstaklega undirstrika það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar framsögumanns, að í vinnu nefndarinnar urðum við vör við að ýmis atriði sem henta mjög illa fyrir skuldara eru í íslenskri löggjöf, eru að vissu leyti nokkurs konar séríslensk fyrirbæri. Það þarf að skoða þau sérstaklega. Vil ég þá sérstaklega nefna tvö atriði. Fyrst er það atriði að kröfuhafi hafi sjálfdæmi um það hvernig innborgun á skuld er ráðstafað, fyrst komi til greiðslu kostnaðar og vaxta og síðan höfuðstóls. Það hefur neikvæð áhrif á greiðslugetu skuldara ef fólk borgar og borgar án þess að höfuðstóllinn lækki, ef ekki er hægt að höggva höfuðstólinn niður. Þetta atriði þarf að skoða og hæstv. fjármálaráðherra er að breyta þessari tilhögun tímabundið hvað varðar kröfur ríkisins. Ég tel að það þurfi að skoða þetta miklu víðtækara.

Svo eru það þessi ábyrgðarmannamál sem eru ekki í nógu góðu ferli á Íslandi. Þriðji aðili, ábyrgðarmaðurinn, stendur oft og tíðum uppi með miklar skuldir vegna ábyrgðar sinnar ef skuldari getur ekki borgað. Þetta fyrirkomulag er miklu algengara á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Það er eins og lánastofnanir hafi einhvern veginn komið ábyrgðinni í of ríkum mæli af sér yfir á þriðja aðila, ábyrgðarmann, og fríað sig. Lánastofnanir hafa væntanlega tilhneigingu til að taka meiri áhættu í útlánum þegar hægt er að ganga að ábyrgð þriðja aðila, ganga að ábyrgðarmanni. Það væri eðlilegt að endurskoða þetta fyrirkomulag, virðulegi forseti.

Mjög mikil óvissa er um hve margir munu leita í úrræðið sem við erum að fjalla um, í greiðsluaðlögun. Þegar frumvarpið kom fram við 1. umr., og það sést í frumvarpinu, var verið að reyna að finna út hver málafjöldinn gæti orðið. Í umsögn fjármálaráðuneytisins í frumvarpinu er það tekið sem dæmi að verði málafjöldinn 100–200 mál verði kostnaður ríkissjóðs 25–50 millj. kr. af frumvarpinu. Í nefndinni kom hins vegar fram að sú tala er örugglega mikil vanáætlun. Sú skoðun kom frá umsagnaraðilum að búast mætti við 10 sinnum fleiri málum, þ.e. 1.000–2.000 málum.

Í máli Ástu S. Helgadóttur, sem er forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, kom fram að nú þegar er talsvert mikið spurt um þetta úrræði og margir sem eru í samskiptum við stofuna bíða eftir því að þetta mál klárist. Ásta undirstrikaði mikilvægi þess að þingið kláraði þetta mál sem fyrst þannig að hægt væri að beina fólki í þennan farveg, í greiðsluaðlögun, og hægt væri að byrja að vinna í málunum hratt og örugglega.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, lýsa mig fylgjandi frumvarpinu. Ég tel mikilvægt að afgreiða það hið fyrsta.