136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að setja á löng ræðuhöld um þetta mál sem við fjöllum hér um, greiðsluaðlögunina, enda styð ég málið en skrifaði undir nefndarálit allsherjarnefndar með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur að því að ég held að allir þeir sem að málinu koma vilji að þetta úrræði sé mögulegt fyrir þá sem eiga í greiðsluvanda og fyrirsjáanlegt er að muni lenda í greiðsluvanda. Mikilvægt er að haga málum þannig að þetta úrræði gangi hratt og vel fyrir sig.

Fyrir ekki svo löngu, ætli það hafi ekki verið fyrir svona einu og hálfu ári, þegar ég sat í allsherjarnefnd, komu fulltrúar sýslumanna fyrir allsherjarnefnd til að gera grein fyrir stöðu mála hjá embættunum. Á þeim tíma biðu tugir þúsunda mála afgreiðslu hjá sýslumannsembættunum og mesti málastabbinn var hjá sýslumanninum í Reykjavík. Ég tel að skynsamlegt væri og skynsamlegra að heimila fleirum að koma að þessum málum og aðstoða fólk í greiðsluvanda, eins og t.d. þeim fjölmörgu lögmönnum sem starfa hér í bænum, og hvort sem menn vilja setja þessi mál undir hatt sýslumannanna eða ekki held ég að það mundi greiða fyrir afgreiðslu málanna ef aðrir hefðu einnig heimildir. Ég held líka að það væri þægilegra og heppilegra fyrir skuldarana sjálfa. Ég þekki það úr fyrra starfi mínu sem lögmaður að það eru oft þung skref fyrir fólk, sem hefur lent í greiðsluvanda, að fara inn til sýslumanns, standa þar í röð og bíða ásamt öðrum skuldurum eftir því að að því komi til að fá úrlausn mála sinna. Það er manneskjulegra umhverfi, tel ég, að mörgu leyti ef hægt væri að fá fleirum þessi úrræði og umsjón þeirra. Þess vegna boðaði ég við afgreiðslu málsins út úr allsherjarnefnd að ég óskaði eftir því að málið kæmi til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. til að hægt væri að fara yfir fjölda þeirra mála sem nú bíða úrlausnar hjá sýslumanninum í Reykjavík og öðrum sýslumannsembættum. Það væri þá ætlað til að varpa ljósi á það hvort sýslumannsembættin hafi mannafla til að sinna þeim beiðnum sem fram koma.

Það hlýtur að vera einsdæmi ef menn ætla að fara þá leið að fela ríkisstofnun í raun einkarétt á því að hlutast til um einkaréttarlega samninga fyrir einstaklinga. Við tölum hér um skuldamál sem eru fyrst og fremst milli einstaklinga og lánastofnana og eðlilegt að einstaklingarnir sjálfir fái að ákveða hverjir gæti hagsmuna þeirra við úrlausn mála þeirra. Ég vonast til að meiri hluti allsherjarnefndar taki þessar ábendingar gildar og að við förum yfir málið í hv. allsherjarnefnd með það að markmiði að gera þetta úrræði sem best úr garði þannig að það verði sem þægilegast fyrir þá sem leita sér þessarar aðstoðar og jafnframt til að tryggja að meðferð málanna taki sem skemmstan tíma og sé sem léttvægust fyrir þá sem í þeim standa.

Ég vildi, frú forseti, koma þessum sjónarmiðum mínum að hér við umræðuna. Þær athugasemdir sem ég geri við málið lúta eingöngu að framkvæmdinni. Ég ítreka að við sjálfstæðismenn styðjum málið og þá meginhugsun sem þar kemur fram, ég óttast hins vegar að ef sú leið verði farin sem lögð er til muni sýslumannsembættunum reynast ákaflega erfitt að þjónusta það fólk sem eftir henni þarf að leita.