136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhús.

[15:05]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef reglulega gert grein fyrir málefnum Tónlistar- og ráðstefnuhúss í fjárlaganefnd og á fund fjárlaganefndar í morgun komu fulltrúar fjármála- og menntamálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar og Austurhafnar-TR ehf. Ríkisendurskoðun lagði fram gögn og fram kom í minnisblaði Ríkisendurskoðunar með vísan til lagaákvæða fjárreiðulaga og annarra tilgreindra laga að fullnægjandi lagaheimildir búi að baki skuldbindingum þeim sem ríkið gekkst undir með samningum við Portus ehf. á sínum tíma. Jafnframt telur Ríkisendurskoðun að veðsetning sú sem til umfjöllunar hefur verið feli ekki í sér viðbótarskuldbindingar fyrir ríkissjóð samkvæmt fyrirliggjandi samningum varðandi Tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Það er því mat Ríkisendurskoðunar með vísan til þess sem fram kom í minnisblaði stofnunarinnar að framangreind veðsetning sé ekki í andstöðu við fjárreiðulögin.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, vil ég vísa til hjálagðra minnisblaða Ríkisendurskoðunar, fjármálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Austurhafnar-TR ehf. sem lögð var fram á fundi fjárlaganefndar í morgun. Ég hef gert þinginu grein fyrir þessum fundi fjárlaganefndar.