136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

yfirfærsla lána milli gömlu og nýju bankanna.

[15:23]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir skýr svör að því leyti til að þau símtöl og tölvupóstar sem maður hefur fengið eiga við rök að styðjast. Það eru vinnureglur í gildi og þær eru mismunandi. Þær eru mismunandi eftir því hvort um erlenda mynt eða innlenda mynt er að ræða eftir því sem hæstv. ráðherra segir og þær eru mismunandi eftir veðum og greiðslugetu fólks.

Hæstv. forseti. Það hlýtur að verða að gera skýra kröfu til þess, í ljósi þess sem hér hefur komið fram, að hæstv. viðskiptaráðherra upplýsi þingið skilmerkilega um það hvernig bankarnir starfa, hverjir fá afskriftir og á hvaða forsendum. Ekki er hægt að vinna í þessu þjóðfélagi með tilfærslur á fjármunum þar sem Jón fær þetta niðurfellt og annar Jón eitthvað allt annað, fyrirtæki á þessu sviði fær þetta, Mogginn eitthvað allt annað o.s.frv. Svona getum við ekki haldið áfram og ég krefst þess að þetta sé skýrt og upplýst.