136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

Fjármálaeftirlitið og bankarannsókn.

[15:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Eitt af því sem er mikilvægt í kjölfar þeirra áfalla sem íslenskt samfélag varð fyrir í haust og bankahrunsins er rannsókn á þeim atburðum öllum og Alþingi ákvað að setja á laggirnar embætti sérstaks saksóknara til að fjalla um banka- og efnahagshrunið. Nú hefur verið greint frá því og sérstakur saksóknari hefur greint frá því að hann hafi ekki fengið upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu, ekki fengið það sem hann telur nauðsynleg gögn til að rækja starf sitt og væntanlega er viðbáran bankaleynd. Þarna er um að ræða endurskoðunarskýrslur bankanna þriggja. Sérstakur ráðgjafi sem ríkisstjórnin hefur ráðið, Eva Joly, var í viðtali í norska sjónvarpinu nú fyrir helgi og gagnrýndi hún þar þetta fyrirkomulag talsvert.

Nú hefur verið upplýst að sérstakur saksóknari óskaði eftir því 13. febrúar sl. að fá þessi gögn í hendurnar til að geta sinnt sínu mikilvæga starfi. Hann ítrekaði þá beiðni 15. febrúar, 17. febrúar og enn fremur 25. febrúar. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur Fjármálaeftirlitið ekki svarað formlega beiðni sérstaks saksóknara enn þá. Ég tel að þetta sé alveg með ólíkindum og ég tel að þessi afstaða misbjóði réttlætiskennd almennings í landinu. Það birtist þjóðinni þannig að Fjármálaeftirlitið standi í raun í vegi fyrir rannsókn á bankahruninu. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort menn í Fjármálaeftirlitinu séu að verja eigin rann í þessu samhengi.

Ég spyr þess vegna hæstv. viðskiptaráðherra hver hans afstaða sé til þessa, hvort hann hafi eða muni beita sér í málinu gagnvart Fjármálaeftirlitinu þannig að sérstakur saksóknari fái öll þau gögn í hendurnar sem hann þarf á að halda og það er þá hans (Forseti hringir.) að nota hvað í þeim gögnum þarf sérstakrar rannsóknar við í þessu samhengi.