136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[15:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu. Það er mikilvægt að rætt sé með upplýstum hætti um það mikla verkefni sem nú er staðið í við að skilja á milli eigna gömlu og nýju bankanna. Í reynd er hér um að ræða skuldaskil. Með öðrum orðum er verið að ákveða hvaða verð er greitt fyrir þær eignir sem færast til nýju bankanna. Þar þarf að gæta sanngirni og þar þarf að gæta varúðar því að það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni í upphafi umræðunnar, það er mjög mikilvægt að þarna sé ekki ofáætlað eða vanáætlað. Það er mjög mikilvægt að rétt verð finnist því að ella gerist annað tveggja, skattborgarar þurfa að bera byrðar sem þeir eiga ekki að bera eða erlendir kröfuhafar telja sig hlunnfarna og geta kallað eftir riftun þeirra skilmála sem þeim eru búnir í þessum samningum.

Það hefur verið mikill misskilningur í gangi í opinberri umræðu um þetta mál upp á síðkastið. Því hefur jafnvel verið haldið fram að við þessi skuldaskil yrðu til einhver verðmæti sem síðan væri hægt að deila út með einhverjum hætti. Formaður Framsóknarflokksins hefur ítrekað haldið þessari skoðun fram en það er einfaldlega ekki þannig. (Gripið fram í: Nú?) Hér verða ekki til nein ný verðmæti við skuldaskilin úr gömlu bönkunum í þá nýju. Ef gengið verður á rétt kröfuhafanna munu þeir alltaf geta að íslenskum lögum komist undan óréttmætum skilmálum að því leyti og ef vanáætlað verður þarf almenningur í landinu að borga brúsann. Það er ekki þannig að við getum búið til verðmæti úr lofti við þessa yfirfærslu. Það er mikilvægt að ræða þessi mál með opnum og gagnsæjum hætti og ég fagna því að viðskiptaráðherra hyggist upplýsa þingið um leið og frekari upplýsingar (Forseti hringir.) verða ljósar um skuldaskilin milli gömlu og nýju bankanna.