136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[16:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég held að allir séu sammála um það í þessum sal að endurreisn bankakerfisins er eitt það brýnasta verkefni sem við stöndum öll frammi fyrir. Ég tek undir það sem sagt hefur verið, við eigum að efla og tryggja tengslin við erlendu kröfuhafana og flýta þeim skilum sem þurfa að vera á milli gömlu og nýju bankanna, og gera það sem fyrst.

Af hverju erum við sífellt að ræða um það að endurreisn bankakerfisins skipti mestu máli? Í þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag er auðvitað brýnast fyrir okkur að verja störfin. Bankakerfið hikstar enn, bankakerfið veitir ekki enn þá svör þannig að við þurfum að verja störfin, verja litlu, meðalstóru og stærri fyrirtækin til að fólk geti haldið áfram að gera það sem skiptir líka máli, þ.e. að greiða af lánum til að halda húseignum sínum. Það verður mesta áfallið fyrir fólkið þegar það hættir allt í einu að geta greitt af lánum sínum vegna atvinnumissis. Við vitum að erfiðleikarnir innan bankanna eru margþættir í dag, þá vantar eigið fé, það er ákveðin hræðsla meðal stjórnenda bankafyrirtækjanna við að taka ákvarðanir, það er óljóst hverjir eru eigendurnir, en fyrst og síðast verðum við auðvitað að setja okkur þau markmið að bankakerfið fari af stað, það er skammtímamarkmiðið, en síðan er langtímamarkmiðið að nýta bankakerfið til lengri tíma til að gera ríkissjóð skuldlausan eða skuldlítinn.

Hvað er að gerast í bönkunum? Bankastarfsemin eins og hún er núna er ekki að gera það sem hún á að gera, sinna hinni hefðbundnu bankastarfsemi. Þess vegna tel ég að það þurfi að fara að greiða úr þessu eignasafni bankanna, það þarf að gera það sem fyrst til að bankarnir í dag geti farið að svara fyrirtækjunum, litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, varðandi starfsemi þeirra. Við eigum síðan að taka aðrar eignir út úr bönkunum þannig að þeir geti einblínt á sína hefðbundnu starfsemi og ég vonast (Forseti hringir.) til þess að við getum farið í 2. umr. hvað það varðar (Forseti hringir.) um hvað við ætlum síðan að gera við þau fyrirtæki sem geta ekki lengur (Forseti hringir.) staðið undir sér sjálf við núverandi aðstæður.