136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[16:02]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er fjölbreytt umræða þó að verkefnið sé eitt, að ræða endurreisn bankakerfisins. Ég vil grípa niður í atvinnulífið en auðvitað er það þannig að þessi biðtími sem hefur verið síðustu fimm mánuðina og verður hugsanlega tvo næstu mánuðina þar til gengið verður hér til kosninga hefur það í för með sér að menn eiga erfitt með að snúa hlutunum af stað. Það tengist atvinnulífinu því að það tengist um leið fjármálakerfinu og við vorum hér með 15 fjármálastofnanir. Stór hluti þeirra er núna kominn til ríkisins og líkt og hér hefur komið fram í umræðunni, virðulegur forseti, er ákveðinn biðtími og varfærni í gangi í fjármálastofnununum, eðlilega, því að í sjálfu sér eru menn að horfa yfir sviðið og gera ýmislegt upp. Tengslin eru þannig að það rekst hvað á annars horn í þeim efnum.

Þar af leiðandi skiptir auðvitað máli að atvinnulífið fái skýr svör sem fyrst. Það tengist um leið endurreisn heimilanna því að atvinnulíf og heimili haldast í hendur. Á sama tíma horfum við fram á það, virðulegur forseti, að ríkisreksturinn tekur í. Við erum með 150 milljarða kr. halla á þessu ári í ríkisrekstrinum. Ríkið þarf að draga til sín fjármagn en um leið þurfum við að hagræða inn á næsta ár um tugi milljarða. Það þýðir að ríkið dregur til sín það takmarkaða fjármagn sem er á markaði.

Það sem skiptir líka máli og ég vil koma hér að í lokin er að í ástandi eins og nú er skapast hugsanlega fákeppni og þá þurfum við sterkara Samkeppniseftirlit. Það þarf að tryggja það að markaðurinn fari að virka á þann hátt sem eðlilegt er. Þess vegna þarf að huga að Samkeppniseftirlitinu því að það gerist líka þegar takmörkun er í gangi, eins og verður þegar ríkið heldur utan um jafnvel 80% af (Forseti hringir.) fjármálakerfinu eins og nú er.