136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[16:09]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mesta vandamál okkar Íslendinga nú er atvinnuleysið. Það er auðvitað algjörlega óbúandi við það að það verði með sama hætti og nú er eða aukist. Það verður með öllum tiltækum ráðum að bregðast við því og bankastarfsemin er einn hlutur þess, að bankarnir vinni eins og menn vonast eftir, þeir þjónusti atvinnulífið, þjónusti fyrirtækin þannig að þau geti reynt að halda uppi sem eðlilegastri starfsemi. Á þetta hefur verulega skort í langan tíma, hæstv. forseti, og þetta er orðið mjög erfitt í mörgum fyrirtækjum, ekki bara stórum heldur einnig í minni fyrirtækjum, kannski sérstaklega minni og meðalstórum fyrirtækjum.

Það eru yfirleitt vaxtarbroddarnir í hverju þjóðfélagi þegar fram í sækir, hæstv. forseti, að geta hlúð að minni og meðalstórum fyrirtækjum upp á framtíðina að gera. Þess vegna er orðið mjög brýnt og ég hvet hæstv. viðskiptaráðherra til að taka af skarið og ákveða að leggja fé inn í bankakerfið. Hæstv. ráðherra upplýsti hér að það væru talsverðar líkur á því að það sem þyrfti að leggja inn í bankana væri verulega lægri upphæð en þessir 385 milljarðar sem um var talað. Ég spyr hvort búið sé að leggja eitthvað af þessum upphæðum sem hér er verið að tala um, 385 milljarða, inn í bankana. Hefur það verið gert nýlega eða eru menn enn þá að bíða eftir einhverri endanlegri tölu til að geta lagt bönkunum til fé til að laga starfsemi þeirra?

Ég held að það sé mjög mikilvægt að komast út úr þeirri stíflu sem virðist vera að eyðileggja starfsemi bankanna og auka atvinnuleysi í landinu.