136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

13. mál
[16:19]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér eru á ferðinni heilmikil tímamót en nú er þingið að samþykkja það að lögfesta beri barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Með þessu skrefi munum við auka réttindi íslenskra barna til muna og gera íslenskum dómstólum skylt að taka mið af barnasáttmálanum sem settum lögum. Þá erum við einnig að ákveða að öll löggjöf sem snertir börn komi til endurskoðunar í ljósi barnasáttmálans.

Frú forseti. Með þessu skrefi erum við að verða ein af fáum þjóðum heims sem lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta er því afar stór dagur í málefnum barna og fjölskyldna og hér sýnum við í verki að við setjum hagsmuni barna í forgrunn.

Þetta eru líka viss tímamót því að hér er á ferðinni þingmannamál sem ég flutti fyrst fyrir þremur árum og ég vil þakka kærlega fyrir þann pólitíska stuðning sem þessi tillaga fær hér í dag.