136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

13. mál
[16:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn erum mjög ánægðir með að geta greitt atkvæði með þessu stóra framfaramáli. Hér er verið að lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það er mjög eðlilegt að gera það.

Ég vil líka taka það fram vegna atkvæðagreiðslunnar sem hér fer fram og af því að þetta er þingmannamál að þetta mál er eitt af mörgum sem við erum að sjá fara í gegn núna. Ekki bara þetta mál heldur mörg önnur sem sýnir hvað þingið við þær aðstæður sem eru núna hefur talsvert meiri völd en við höfum áður séð.

Ég er líka ánægð með að framsóknarmenn hafi tekið það skref á sínum tíma að ákveða að verja minnihlutastjórn vantrausti í þinginu af því að það hefur skapað tækifæri fyrir okkur þingmenn að koma góðum málum í gegn án þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafi lagt fótinn þvert yfir. Þetta er eitt dæmi um það. Ég er mjög stolt af því að við séum að afgreiða (Forseti hringir.) þetta framfaramál við þessar aðstæður.